Innlent

Lést eftir að hafa kastað sér úr leigubíl á ferð

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins. Vísir
Kínverskur karlmaður lést af áverkum sínum eftir að hafa farið út úr leigubifreið á ferð á Austurbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ að kvöldi 28. ágúst síðastliðins.

Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð. Hann lést þriðja september síðastliðinn á Landspítalanum.

„Hann virðist hafa kastað sér út úr bílnum og ferð og skollið svona illa í götuna,“ segir Jóhannes Jensson hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem fer með rannsókn málsins. Jóhannes segir manninn hafa hlotið mikla höfuðáverka þegar hann skall í götunni. Hann segir ekki grun um að dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. Haft var samband við aðstandendur mannsins sem komu til hingað til lands vegna málsins.

Rannsókn málsins sé á lokastigi en ekki hafi fengist almennileg skýring á því hvers vegna maðurinn kaus að fara úr bílnum á ferð.

Búið sé að yfirheyra leigubílstjórann og vegfarendur sem komu að manninum eftir að hann hafði skollið í götunni.

Jóhannes segir kínverska ferðamanninn hafa verið á leiðinni á Ásbrú. Þegar þangað var komið virkaði greiðslukort hans ekki og því tókst honum ekki að greiða fyrir farið.

„Leigubílstjórinn ákvað að reyna einhverjar aðrar leiðir til að láta þetta ganga. En við erum ekki með neinar upplýsingar frá þeim slasaða hvers vegna nákvæmlega þetta gerist,“ segir Jóhannes. 

Leigubílstjórinn hafi því ekið af stað með kínverska ferðamanninn enn í bílnum. Þegar leigubílstjórinn hafði ekið skamma vegalengd hafi farþeginn farið úr bílnum á ferð með fyrrgreindum afleiðingum. Ekki hafi komið upp ágreiningur á milli mannanna að sögn Jóhannesar.

Jóhannes segir bílinn ekki hafa verið á miklum hraða, á bilinu 40 til 50 kílómetra hraða á klukkustund á götu í íbúðarhverfi.

Hann segir að kínverski ferðamaðurinn hafi ekki dvalið lengi hér á landi áður en þetta átti sér stað. „Og hann var á leið aftur frá landinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×