Viðskipti innlent

Félag Friðriks hagnast um 5,4 milljarða eftir sölu á Invent Farma

Hörður Ægisson skrifar
Friðrik Steinn Kristjánsson átti rúmlega 27 prósenta hlut í spænska lyfjafyrirtækinu Invent Farma.
Friðrik Steinn Kristjánsson átti rúmlega 27 prósenta hlut í spænska lyfjafyrirtækinu Invent Farma. VÍSIR/ERNIR
Félag Friðriks Steins Kristjánssonar, stofnanda og fyrrverandi stjórnarformanns Invent Farma, skilaði tæplega 5,4 milljarða króna hagnaði í fyrra. Friðrik átti rúmlega 27 prósenta hlut í spænska lyfjafyrirtækinu sem var selt erlendum fjárfestum á síðasta ári fyrir jafnvirði um 29 milljarða.

Fram kemur í nýbirtum ársreikningi Silfurbergs ehf., sem er í jafnri eigu hjónanna Friðriks og Ingibjargar Jónsdóttur, að hagnaðurinn komi til vegna hlutabréfa og hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga. Bókfært virði hlutar félagsins í Invent Farma var 6,5 milljarðar í árslok 2016 og jókst um 4,3 milljarða á árinu. Eigið fé Silfurbergs nemur tæplega 8,5 milljörðum.

Markaðurinn greindi frá því fyrr í þessum mánuði að bókfærður hagnaður vegna sölu á Invent Farma, sem var nánast að fullu í eigu íslenskra fjárfesta, hafi numið um 21 milljarði. Auk Friðriks voru stærstu hluthafar félagsins Framtakssjóður Íslands með 38 prósenta hlut og framtakssjóðurinn Horn II ásamt meðfjárfestum sem átti um 17 prósenta hlut.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×