Lífið

Nýtt lag og myndband um píkur

Guðný Hrönn skrifar
Anna Tara segir myndbandið vera krassandi.
Anna Tara segir myndbandið vera krassandi.
Tónlistarkonan Anna Tara Andrésdóttir sendir frá sér nýtt lag með Reykjavíkurdætrum í dag sem heitir Pussypics. Spurð út í hvaðan hugmyndin að laginu komi segir Anna: „Það er mjög erfitt fyrir mig að segja hvaðan hugmyndin að laginu kemur, píkur eru í raun þema sem ég hef legið yfir í um eitt ár. Það er til svo mikið meira af typpamyndum í heiminum en píkumyndum. Svo er meirihluti þeirra píkumynda á forsendum karla eins og til dæmis úr klámi. Þannig að mér finnst í raun vanta vettvang fyrir píkumyndir á forsendum kvenna,“ útskýrir Anna.

Kynjajafnrétti er Önnu Töru hugleikið og það veitir henni innblástur í listsköpun. „Ætli það væri ekki einhvers konar mælikvarði á jafnrétti ef konum þætti eins sjálfsagt að taka myndir af píkunum sínum og senda á netinu eins og körlum. Þá væri jafnrétti kannski náð en við erum langt frá því.“

Spurð nánar út í lagið segir Anna Tara: „Lagið Pussypics byrjar á línunni: „I wish my pussy was my face to make the world a better place“. Ég samdi textann og rappa í laginu og Solveig Pálsdóttir sem er með mér í Reykjavíkurdætrum syngur í laginu með mér. Thorbjörn Einar Guðmundsson gerði svo taktinn og Bjarki Hallbergs hljóðblandaði en þeir eru betur þekktir undir nafninu BLKPRTY.“

Laginu fylgir svo myndband. „Ég var svo heppin að finna eitt hugrakkt módel sem vill að vísu vera nafnlaust. Myndbandið við lagið er ein píka nánast allan tímann. Maður veltir fyrir sér hvernig sé hægt að gera myndband úr einni píku en ég komst að því að það er vel hægt ef maður „zoomar“ inn nógu oft,“ segir hún og hlær. Þess má geta að myndbandið verður gefið út á vimeo.com. „Ég hugsa að það verði tekið út af YouTube. Og að lokum vil ég segja að öll gagnrýni þarf að beinast að mér, ekki hljómsveitinni í heild, ég er ein ábyrg fyrir þessu.“

Uppfært: Myndbandið hefur verið fjarlægt af Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×