Lífið

Minningin er brennd inn í barnssálina

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Feðgarnir Eiríkur og Þórarinn stilltu sér upp í snjónum í höfuðborginni í gær.
Feðgarnir Eiríkur og Þórarinn stilltu sér upp í snjónum í höfuðborginni í gær. Vísir/Vilhelm
Myndin er átakanleg og áfallateymi fjórðungssjúkrahússins verður viðstatt frumsýninguna, enda mæta þar þeir sem koma fram í henni, fólk sem lenti í flóðinu eða missti ættmenni þar,“ segir Þórarinn Hávarðsson sem ásamt syni sínum, Eiríki Þór Hafdal, hefur gert mynd um snjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974. Þar fórust tólf manns og atvinnulífið lamaðist. Myndin nefnist Háski, fjöllin rumska og verður frumsýnd í Egilsbúð í Neskaupstað á morgun klukkan 17.

Þórarinn tók viðtölin og Eiríkur Þór var tökumaður og klippari. Hvernig gekk efnisöflun? „Ég hefði ekki trúað því að óreyndu hversu auðveldlega gekk að fá fólk til rifja þessa atburði upp, þrátt fyrir að það tæki gífurlega á því sumir bara grétu eins og börn fyrir framan vélina. Samt eru liðin 43 ár.“

Var myndefni til? „RÚV átti talsvert af fréttamyndum sem Ómar Ragnarsson og fleiri tóku dagana eftir flóðin og sýndu afleiðingarnar. Við byrjum á að segja frá og sýna Neskaupstað eins og hann var fyrir flóð, síðan fjöllum við um snjóflóðið og björgunaraðgerðirnar og svo tökum við eftirmála um uppbyggingu snjóflóðavarnargarðanna sem nær alveg til dagsins í dag.“

Þeir feðgar tóku upp 18 klukkutíma af viðtölum en myndin er 2,08 tímar, að sögn Þórarins. „Fyrsta útgáfa okkar af myndinni, þegar við vorum orðnir ánægðir, var upp á fimm klukkutíma, svo þurftum við að klippa hana niður í tvo, það var erfitt. Á móti kemur að við munum vinna þrjá til fjóra þætti fyrir sjónvarpið úr efninu, þeir verða sennilega á dagskrá að ári liðnu.“

Þórarinn átti heima á Norðfirði sem barn. „Ég var tólf ára gutti þegar flóðin féllu og man vel eftir þeim, minningin um þau er eins og brennd inn í barnssálina,“ segir hann. „Tveir í mínum bekk misstu þar foreldri. Þetta var erfiður tími, vægast sagt.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.