Guðrún rekur smurbrauðsstofuna Sylvíu á Laugavegi en hún tók við rekstrinum af tengdamóður sinni. Stofan er veisluþjónusta og Guðrún segir að mjög mikið sé að gera á aðventunni. „Við erum með fjölda fastra viðskiptavina á aðventu og sérstaklega á Þorláksmessu. Það er hefð í mörgum fyrirtækjum að bjóða upp á smurt brauð eða tapassnittur á þeim degi,“ segir hún.

Guðrún samþykkti að útbúa jólabrauðtertu fyrir lesendur og hún segist strax hafa hugsað að hafa hana einfalda og með einhverju sem fólk ætti í ísskápnum.
„Það eru flestir með afganga af hamborgarhrygg sem sniðugt er að nýta í brauðtertu. Það gæti verið kjörin leið til að koma í veg fyrir matarsóun að setja afganga í svona brauðtertu. Ég bjó til tertuna í fyrsta skipti um daginn og gaf nokkrum félögum mínum í kokkastétt að smakka. Þeir voru mjög hrifnir svo ég fór alla leið í þessu,“ segir Guðrún sem útskrifaðist sem matreiðslumaður árið 2013 og hélt þá áfram í meistaraskólanum. Hún lærði í veitingahúsi Perlunnar en fyrir tveimur árum tók hún við smurbrauðsstofunni.
Tertan er fallega skreytt en Guðrún segist vera mikið jólabarn sjálf.
„Ég er eins og aðrir með hamborgarhrygg á aðfangadag. Í eftirrétt geri ég ís eða súkkulaðimús eftir því sem börnin vilja. Mér finnst gaman að skreyta í kringum mig og lýsa upp skammdegið. Ég byrja snemma að skreyta vegna þess að það er svo mikið að gera þegar líður að jólum í vinnunni,“ segir hún og hér kemur uppskriftin að þessari glæsilegu tertu.
Jólabrauðterta
- Salat
- 250 g hamborgarhryggur
- 1 grænt epli
- 10 vínber
- 80 g niðursoðin ferskja
- 50 g agúrka
- 250 g majónes, má nota sýrðan rjóma á móti
- 3 sneiðar brauðtertubrauð
- Kryddað með salti, pipar og papriku eftir smekk
Allt hráefnið er saxað smátt, sett í skál og blandað saman. Best er að setja salatið í tertuna deginum áður, þá verður hún mýkri.
Skreyting
Smyrjið tertuna með þunnu lagi af majónesi. Skerið agúrku í sneiðar og klæðið tertuna. Raðið skrauti ofan á og setjið steinselju í kanta.
Í skraut nota ég yfirleitt það sem fer í salatið eða bara það sem er til.