Atferlisrannsókn á mannmaurum Þórlindur Kjartansson skrifar 15. desember 2017 07:00 Til er fólk, einkum börn í amerískum bíómyndum, sem geymir á gluggakistum í herbergjum sínum glerbúr með mold og maurum. Börnin gera það svo að leik sínum að fylgjast með atferli mauranna—og til eru fullorðnir vísindamenn sem gera það sama; og til eru ótal stílabækur með skráningum á ýmsum merkum tilgátum og niðurstöðum um daglega tilveru maura. Okkur finnst maurarnir skemmtilegir af því að samfélag þeirra er flóknara og þróaðra en virðist í fyrstu. Þetta er bæði óvænt og krúttlegt. Maurarnir skipta með sér hlutverkum og rækja skyldur sínar af aðdáunarverðri samviskusemi og elju. Reyndar er samfélag þessara ofureinföldu lífvera nægilega flókið til þess að sífellt eru vísindamenn að komast að nýjum sannleik um hvernig það virkar. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að skilja til botns þá leyndu þræði sem ráða atferli mauranna með því einu að fylgjast með þeim—jafnvel þótt vitsmunamunur sé álitinn töluverður á milli maurs og vísindamanns. Þetta er nokkurn veginn algilt lögmál. Það er miklu erfiðara að skilja reglur með því einu að fylgjast með heldur en að taka þátt—spyrjið bara þá sem reynt hafa að skilja reglurnar í amerískum hafnabolta án aðstoðar kunnáttumanneskju.Geimverubörnin greindu Líklega gerir maurinn sér enga grein fyrir því að lífveran sem hann verður öðru hverju var við sé æðri vitsmunavera sem sé að fylgjast sérstaklega með honum. Maurinn á örugglega erfitt með að gera sér í hugarlund að nokkurt vitsmunalíf geti verið æðra en hans eigið, eða þá—sem er líklegra—hann er alltof upptekinn við að velta sér upp úr moldinni til þess að velta fyrir sér frumspeki og fyrirbærafræði. Þetta er einn munurinn á manni og maur og leiðir meðal annars til þess að þótt fjölmörg dæmi um að menn fangi maura í búr, þá er ekki vitað til þess að maurar haldi menn sem gæludýr. Allavegana er ekki haft hátt um það. Við mennirnir höfum þó þá getu að láta okkur detta í hug hvort það geti verið að við sjálf gætum í raun verið hálfgert leikfang æðri vitsmunavera—að veröldin okkar sé glerkrukka í gluggakistu ofurgáfaðs geimverubarns sem gerir það að leik sínum að fylgjast með atferli okkar, skrá niður það sem því finnst áhugaverðast og reyna að ráða í það hvaða ósýnilegu kraftar og þræðir stjórna okkur.Ys og þys í mannmaurabúinu Þegar geimverubarnið fær mannmaurabú í jólagjöf kemst það fljótlega að því að samfélag mannmauranna er flóknara en virðist í fyrstu. Mannmaurarnir vakna á morgnana, fara með afkvæmi sín í þjálfun, og halda svo á staði þar sem þeir gera eitthvað allan daginn þangað til þeir halda heim með viðkomu í matarbúri þar sem þeir sækja vistir til heimilishaldsins. Þeir stara á skjái, borða, drekka, hlæja oft, gráta stundum og fara svo að sofa. Geimverubarnið sér líka að þar sem mannmaurunum gengur best þá virðast flestir þeirra eyða stærstum hluta tíma síns í að finna upp á einhverju snjöllu til þess að gera fyrir hina mannmaurana. Sumir taka að sér þjálfun unganna, aðrir sækja mat með veiðum eða rækta á heiðum, sumir passa upp á að mannmaurarnir níðist ekki á hver öðrum, sumir búa til ný tæki eða list sem hinir hafa gagn eða gaman að; og þar fram eftir götunum. En þar sem verr gengur virðast maurarnir eiga fullt í fangi með að verja tilvist sína gegn oki og ofbeldi. Allt er þetta afskaplega áhugavert í augum geimverubarnsins sem starir á leikfangið sitt. Það er margt sem það á mjög erfitt með að skilja, sérstaklega þar sem geimverubarnið hefur enga hugmynd um að á milli mannanna ganga einhvers konar innstæðunótur. Geimverubarnið skilur ekki peninga en trúir því einfaldlega að allir séu að sinna sínu eðli í þágu mannmaurabúsins.Við hverja er dekrað? Með tíð og tíma kemst geimverubarnið ekki hjá því að taka eftir því að svo virðist sem mannmaurarnir kunni mjög misvel að meta framlag hinna mauranna. Sumir lifa fábreyttu og jafnvel fátæklegu lífi á meðan mannmaurarnir hafa ákveðið að leyfa sumum úr sínum hópi að búa við mikinn munað í stórum húsum, stjana í kringum þá og dekra við þá á allan hátt. Eðlileg ályktun hins greinda geimverubarns er vitaskuld að mannmaurarnir séu að verðlauna þá úr sínum hópi sem gengur best af öllum að uppfylla þarfir allra hinna og keppist þess vegna við að gera lífsgæði þeirra sem best. En svo tekur geimverubarnið eftir því að við suma mannmaura er dekrað jafnvel þótt þeir virðist lítið eða ekkert leggja af mörkum til þess að bæta líf hinna mauranna. Sumir virðast fá að lifa í allsnægtum af því að foreldrar og forfeður þeirra voru gagnlegir mannmaurar—og sums staðar virðist skynsamlegasta leiðin til að lifa góðu lífi vera fólgin í því að vera vondur við hina mannmaurana og taka af þeim það sem þeir skapa í krafti ofbeldis og kúgunar.Stjórnmálamannmaurarnir Það er óvíst að geimverubarnið skilji hlutverk stjórnmálamannmaura. En það tekur vafalaust eftir því að maurunum líður betur og gengur betur eftir því sem beinni tengsl eru milli þess að skapa verðmæti fyrir aðra og að fá að njóta lífsgæða fyrir sjálfan sig. Samfélög mannmaura þar sem best er að sitja á verðmætum, eða hirða þau af öðrum með afli, eru verri, ójafnari og ofbeldisfyllri. Og eitthvað virðast stjórnmálamannmaurarnir hafa með það að gera að sníða reglur samfélagsins í aðra áttina eða hina. Vonandi tekst þeim sem flestum að standa frekar vörð um góðu reglurnar en þær slæmu áður en geimverubarnið fær leiða á nýja leikfanginu og sturtar því niður í geimveruklósettið sitt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórlindur Kjartansson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Til er fólk, einkum börn í amerískum bíómyndum, sem geymir á gluggakistum í herbergjum sínum glerbúr með mold og maurum. Börnin gera það svo að leik sínum að fylgjast með atferli mauranna—og til eru fullorðnir vísindamenn sem gera það sama; og til eru ótal stílabækur með skráningum á ýmsum merkum tilgátum og niðurstöðum um daglega tilveru maura. Okkur finnst maurarnir skemmtilegir af því að samfélag þeirra er flóknara og þróaðra en virðist í fyrstu. Þetta er bæði óvænt og krúttlegt. Maurarnir skipta með sér hlutverkum og rækja skyldur sínar af aðdáunarverðri samviskusemi og elju. Reyndar er samfélag þessara ofureinföldu lífvera nægilega flókið til þess að sífellt eru vísindamenn að komast að nýjum sannleik um hvernig það virkar. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að skilja til botns þá leyndu þræði sem ráða atferli mauranna með því einu að fylgjast með þeim—jafnvel þótt vitsmunamunur sé álitinn töluverður á milli maurs og vísindamanns. Þetta er nokkurn veginn algilt lögmál. Það er miklu erfiðara að skilja reglur með því einu að fylgjast með heldur en að taka þátt—spyrjið bara þá sem reynt hafa að skilja reglurnar í amerískum hafnabolta án aðstoðar kunnáttumanneskju.Geimverubörnin greindu Líklega gerir maurinn sér enga grein fyrir því að lífveran sem hann verður öðru hverju var við sé æðri vitsmunavera sem sé að fylgjast sérstaklega með honum. Maurinn á örugglega erfitt með að gera sér í hugarlund að nokkurt vitsmunalíf geti verið æðra en hans eigið, eða þá—sem er líklegra—hann er alltof upptekinn við að velta sér upp úr moldinni til þess að velta fyrir sér frumspeki og fyrirbærafræði. Þetta er einn munurinn á manni og maur og leiðir meðal annars til þess að þótt fjölmörg dæmi um að menn fangi maura í búr, þá er ekki vitað til þess að maurar haldi menn sem gæludýr. Allavegana er ekki haft hátt um það. Við mennirnir höfum þó þá getu að láta okkur detta í hug hvort það geti verið að við sjálf gætum í raun verið hálfgert leikfang æðri vitsmunavera—að veröldin okkar sé glerkrukka í gluggakistu ofurgáfaðs geimverubarns sem gerir það að leik sínum að fylgjast með atferli okkar, skrá niður það sem því finnst áhugaverðast og reyna að ráða í það hvaða ósýnilegu kraftar og þræðir stjórna okkur.Ys og þys í mannmaurabúinu Þegar geimverubarnið fær mannmaurabú í jólagjöf kemst það fljótlega að því að samfélag mannmauranna er flóknara en virðist í fyrstu. Mannmaurarnir vakna á morgnana, fara með afkvæmi sín í þjálfun, og halda svo á staði þar sem þeir gera eitthvað allan daginn þangað til þeir halda heim með viðkomu í matarbúri þar sem þeir sækja vistir til heimilishaldsins. Þeir stara á skjái, borða, drekka, hlæja oft, gráta stundum og fara svo að sofa. Geimverubarnið sér líka að þar sem mannmaurunum gengur best þá virðast flestir þeirra eyða stærstum hluta tíma síns í að finna upp á einhverju snjöllu til þess að gera fyrir hina mannmaurana. Sumir taka að sér þjálfun unganna, aðrir sækja mat með veiðum eða rækta á heiðum, sumir passa upp á að mannmaurarnir níðist ekki á hver öðrum, sumir búa til ný tæki eða list sem hinir hafa gagn eða gaman að; og þar fram eftir götunum. En þar sem verr gengur virðast maurarnir eiga fullt í fangi með að verja tilvist sína gegn oki og ofbeldi. Allt er þetta afskaplega áhugavert í augum geimverubarnsins sem starir á leikfangið sitt. Það er margt sem það á mjög erfitt með að skilja, sérstaklega þar sem geimverubarnið hefur enga hugmynd um að á milli mannanna ganga einhvers konar innstæðunótur. Geimverubarnið skilur ekki peninga en trúir því einfaldlega að allir séu að sinna sínu eðli í þágu mannmaurabúsins.Við hverja er dekrað? Með tíð og tíma kemst geimverubarnið ekki hjá því að taka eftir því að svo virðist sem mannmaurarnir kunni mjög misvel að meta framlag hinna mauranna. Sumir lifa fábreyttu og jafnvel fátæklegu lífi á meðan mannmaurarnir hafa ákveðið að leyfa sumum úr sínum hópi að búa við mikinn munað í stórum húsum, stjana í kringum þá og dekra við þá á allan hátt. Eðlileg ályktun hins greinda geimverubarns er vitaskuld að mannmaurarnir séu að verðlauna þá úr sínum hópi sem gengur best af öllum að uppfylla þarfir allra hinna og keppist þess vegna við að gera lífsgæði þeirra sem best. En svo tekur geimverubarnið eftir því að við suma mannmaura er dekrað jafnvel þótt þeir virðist lítið eða ekkert leggja af mörkum til þess að bæta líf hinna mauranna. Sumir virðast fá að lifa í allsnægtum af því að foreldrar og forfeður þeirra voru gagnlegir mannmaurar—og sums staðar virðist skynsamlegasta leiðin til að lifa góðu lífi vera fólgin í því að vera vondur við hina mannmaurana og taka af þeim það sem þeir skapa í krafti ofbeldis og kúgunar.Stjórnmálamannmaurarnir Það er óvíst að geimverubarnið skilji hlutverk stjórnmálamannmaura. En það tekur vafalaust eftir því að maurunum líður betur og gengur betur eftir því sem beinni tengsl eru milli þess að skapa verðmæti fyrir aðra og að fá að njóta lífsgæða fyrir sjálfan sig. Samfélög mannmaura þar sem best er að sitja á verðmætum, eða hirða þau af öðrum með afli, eru verri, ójafnari og ofbeldisfyllri. Og eitthvað virðast stjórnmálamannmaurarnir hafa með það að gera að sníða reglur samfélagsins í aðra áttina eða hina. Vonandi tekst þeim sem flestum að standa frekar vörð um góðu reglurnar en þær slæmu áður en geimverubarnið fær leiða á nýja leikfanginu og sturtar því niður í geimveruklósettið sitt.