Veiði

Jólaveiði á suðurslóðum

Karl Lúðvíksson skrifar
Kristján með stærsta fisk dagins
Kristján með stærsta fisk dagins Mynd: KL
Greinarhöfundur með minnsta fisk dagsins sem einnig reyndist sá ljótastiMynd: HHG
Nú eru margir íslendingar staddir erlendis í sólarlöndum yfir jól og áramót og í þeim hóp má vafalaust finna nokkra sem horfa löngunaraugum á hafið með veiði í huga.

Undirritaður er staddur á Tenerife yfir hátíðarnar með stórfjölskyldunni og stutt frá eru nokkrir félagar með fjölskyldum að halda jólin í sólinni.  Þegar það barst í samtal að við yrðum staddir á sama tíma á eyjunni umlukta gjöfulum fiskimiðum var auðvitað rætt að reyna koma okkur í einhverja veiði.  Stefán Freyr Stefánsson hafði þá ábyrgð að finna fyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðiferðum og varð Crested Wave fyrir valinu og getum við gefið þeim okkar bestu meðmæli.  Bæði er snekkjan stór og mjög vel búinn, vel var hugsað um alla um borð með nesti og tilheyrandi og skipstjórinn maður með langa reynslu.

Það var ekki farið langt frá eyjunni enda bara um hálfdagstúr að ræða en það má auðvitað plana ferð eftir óskum hvers og eins.  Verðið hjá flestum fyrirtækjunum er um 500-700 Eur á dag og dreifist sú upphæð á þann fjölda veiðimanna sem er um borð.  Það sem veiðist eru nokkrar tegundir túnfisks, skata, barracuda, hammer jack, wahu, mahi mahi og fleiri tegundir en veiðin getur verið upp og ofan eins og allir veiðimenn þekkja.

Við vorum þó sæmilega heppnir, ekki meira en það.  Alls var landað þremur barracuda en nokkrir sluppu og sjást stærðirnar á meðfylgjandi myndum af þeim fiskum sem náðust inn.  Kristján Sveinsson tengdafaðir minn veiddi þann stærsta eins og venjulega og Stefán Freyr og Gunnar þór Gunnarsson veiddu sitt hvorn fiskinn líka.  Undirritaður fékk einn lítinn fisk sem ég þekki ekki deili á en er líkur marhnút og ljótur eftir því.  Það var því ákveðið að hann teldist ekki með.  Við vorum sem sagt tveir sem fengum ekki fisk, ég og Hörður Heiðar Guðbjörnsson en það breytti samt engu því maður samfagnar veiðifélögum sínum og þeirra veiði.

Veðrið var frábært allan tímann sem við vorum úti.  Glampandi sól og logn með þægilegum hita um 20 gráður.  Það þurfa allir veiðimenn og veiðikonur að prófa þessa tegund veiði alla vega einu sinni í heitari löndunum sem við heimsækjum mörg svo oft því það er fátt eins skemmtilegt eins og að veiða nýja tegund og þá ég tali ekki um að tana aðeins um borð í stórum bát úti hafi á fallegum degi.  Þetta var frábær dagur í góðum félagsskap og ég hvet ykkur sem eruð á eyjunum yfir hátíðarnar og eruð með þessa undirliggjandi veiðidellu að kíkja á netið og sjá hvað er í boði.  Eins eru fjölmargir aðilar við fjölfarnar götur á strandlengjunni að skipuleggja ferðir sem eru á verðum eins og ódýr dagur í veiði á Íslandi.






×