Innlent

Reykjavíkurborg kaupir Aðalstræti 10: „Hér viljum við sjá sýningu um upphaf og þróun Reykjavíkur“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Reykjavíkurborg ætlar að kaupa elsta húsið í miðbænum, Aðalstræti 10, á rúmar 260 milljónir.  Borgarstjóri segir að þar eigi að setja upp sýningu um sögu Reykjavíkur frá landnámi til dagsins í dag.

Aðalstræti 10 var reist árið 1772. Það var byggt sem hluti af innréttindum Skúla Magnússonar, landfógeta, en hefur síðan þá verið notað undir hina ýmsu starfsemi.

Árið 2001 var húsið svo fært til upprunalegs forms og nú ætlar borgin að kaupa það, líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

„Minjavernd hefur samþykkt að selja okkur húsið þannig við erum að fara byrja að þróa sýningu og vonum að hún geti verið tilbúin á næsta ári en þá eru 100 ár síðan Ísland fékk fullveldi,“ segir Dagur.

„Hér viljum við sjá sýningu um upphaf og þróun Reykjavíkur. Hérna viljum við að gestir geti fengið hugmyndir um það hvernig Reykjavík varð til. Það er mikið af áhugaverðum rannsóknum núna tengdum fornleifafundum í miðborginni og við viljum líka mæta þessum mikla áhuga á skipulagsmálum um þróun borgarinnar, þannig að fólk geti séð hvernig borgin hefur þróast,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Kaupverðið eru rúmar 260 milljónri króna.„Og inni í því er þetta gamla hús, nýtt hús sem var byggt á bak við og tengibygging þar á milli og svo stór kjallari sem hægt er að tengja við Landlámssýninguna,“ segir Dagur en fyrirhugað er að samnýta sýninguna í Aðalstræti 10 og 16, þar sem Landnámssýningin er, með göngum á milli húsanna.

Dagur segir að allt eigi að vera kár í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×