Viðskipti innlent

Björgólfur ekki í framboði til formanns SA

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir tímabært að nýr aðili taki við keflinu.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir tímabært að nýr aðili taki við keflinu. vísir/gva
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku Samtaka atvinnulífsins, en hann hefur verið formaður samtakanna síðastliðin fjögur ár. Nýr formaður verður kjörinn í lok mánaðarins.

Björgólfur segist á vef samtakanna ekki hafa ætlað sér að gegna formennsku lengur en í þrjú ár. Nú séu þau orðin fjögur og því rétt að nýr aðili taki við keflinu. „Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef starfað með á vettvangi SA, stjórnarfólki og starfsfólki samtakanna og aðildarfélögum fyrir stuðninginn. Einnig vil ég þakka forsvarsfólki samtaka launþega fyrir traust og gefandi samstarf á undanförnum árum,“ segir Björgólfur.

Eyjólfur Árni Rafnsson.samtök atvinnulífsins
Eyjólfur Árni Rafnsson, sem setið hefur í stjórn SA frá 2014 og í framkvæmdastjórn síðastliðið ár, hefur lýst yfir framboði. Hann hefur jafnframt átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins frá árinu 2014 og verið varaformaður SI.

Eyjólfur er húsasmiður að mennt og lauk síðar doktorsnámi í byggingaverkfræði. Hann var forstjóri Mannvits hf og forvera þess félags í tólf ár til ársloka 2015. Frá 2016 hefur Eyjólfur Árni sinnt ýmsum ráðgjafa- og stjórnunarstöðum, að því er segir á vef SA.

Ný formaður verður valinn í aðdraganda aðalfundar SA þann 29. mars næstkomandi með rafrænni kosningu meðal aðildarfyrirtækja samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×