Lífið

Hver er rappdrottning New York borgar?

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Nicki Minaj hefur verið gríðarlega vinsæl síðustu árin.
Nicki Minaj hefur verið gríðarlega vinsæl síðustu árin.
Stöllurnar Nicki Minaj og Remy Ma heyja nú blóðuga styrjöld um hvor þeirra sé rappdrottning New York borgar. Eða raunar virðist stríðið aðallega vera háð frá hlið Remy Ma en hún hefur gefið út tvö lög þar sem hún baunar á Nicki – en Nicki er þögul sem gröfin og lætur raunar eins og ekkert hafi gerst.

Fyrra lagið, Shether, kom út fyrir um viku. Lagið er sjö mínútur að lengd og í því fer Remy um víðan völl í gagnrýni sinni á hina vinsælu Nicki Minaj. Nafn lagsins vísar til hins goðsagnakennda disslags, Ether, sem Nas gerði um Jay-Z hér um árið. Remy segir Nicki meðal annars hafa stolið af sér línum, gagnrýnir afturenda Nicki og sakar hana um framhjáhöld og kallar hana grúppíu.­ Stuttu síðar gaf hún út annað lag, Another One, en það vakti ekki jafn mikil viðbrögð hjá almenningi. Eins og áður sagði hefur Nicki ekki svarað.

Remy Ma hefur verið að reyna að fóta sig í bransanum eftir að hún losnaði úr steininum.
Hver er Remy Ma?

Mörgum er nafnið Remy Ma ekki sérstaklega kunnuglegt. Remy er hluti af Terror Squad hópnum en í honum er til að mynda Fat Joe, DJ Khaled og Big Pun heitinn. Hún gaf út sólóplötu árið 2006 og virtist stefna í að hún yrði stjarna í rappheiminum en árið eftir lenti hún í því „óhappi“ að skjóta einn meðlim fylgdarliðsins síns og fór því beina leið í steininn. Hún slapp ekki út fyrr en árið 2014. Síðan þá hefur hún verið að vinna að því að koma sér aftur á blað, var til dæmis í laginu All the Way Up með Fat Joe og fleirum sem varð mjög vinsælt í fyrra og stefnir nú á að gefa út plötuna Plata o Plomo með Fat Joe. Síðan kom hún sér heldur betur á blað með því að skjóta á Nicki Minaj.

Getum við ekki öll bara verið vinir?

Hver er ástæða þess að Remy Ma ræðst skyndilega á stöllu sína? Hvers vegna getum við ekki bara öll verið vinir? Remy sjálf segir að rætur illindanna liggi djúpt og hafi í raun tekið að spretta í kringum 2007 þegar Nicki Minaj var nánast óþekkt. Remy segist vera að svara Nicki, enda hafi Nicki komið illa fram við hana „bak við tjöldin“ og að Nicki sé ekki góð manneskja. Einnig gerði Nicki lagið Dirty Money árið 2007 sem byrjar á orðunum „segðu þessari tík með kórónuna að koma sér?…“ og á þá við að hún eigi kórónuna skilið – Remy Ma hafði gefið út mixteip á svipuðum tíma þar sem hún er með kórónu á umslaginu. Nicki hefur þó aldrei viðurkennt að hafa verið að tala um Remy.

Remy sagði í viðtali í þætti Wendy Williams að Nicki hefði reynt að koma í veg fyrir að ferill hennar kæmist á skrið, en Remy mætti klædd eins og hún væri í jarðarför í þættinum og vildi lítið tjá sig um Nicki vegna þess að mamma hennar hefði kennt henni að „tala ekki illa um þá dauðu“. „Allir“ bíða nú spenntir eftir svari frá Nicki Minaj. Þó gæti það orðið löng bið og kannski hefur hún ákveðið að leiða þetta hjá sér.

Viðbrögð fræga fólksins

50 Cent – Rapparinn 50 Cent veigrar sér aldrei við að lenda í illdeilum og hann virðist hafa gaman af illdeilum Nicki og Remy Ma. „Hiphop er svo skemmtilegt. Nicki verður að gera eitthvað. Vandamálið er að Remy Ma er hörð í horn að taka.“

Lil Kim – „Þetta er grjóthart lag, Remy þarf enga hjálp,“ segir rapparinn Lil Kim aðspurð hvort hún ætli að taka þátt í deilunum með Remy en Lil Kim og Nicki hafa eldað grátt silfur.

Vivica A. Fox – Leikkonan segir Remy Ma vera frábæra í viðtali við The Shade Room en henni líst hins vegar ekkert á að þær stöllur standi í rifrildi og finnst að þær ættu frekar að vinna saman, enda sé það „það sem konur gera“.

Samanburður

Sóló lög á Hot 100 listanum


Remy Ma: 1

Nicki Minaj: 25

Hæsta sæti plötu á Billboard listanum

RM: #33

NM: #1 (Tvisvar)

Flest áhorf á YouTube

RM: 4.5 milljónir

NM: 660 milljónir

Grammy tilnefningar

RM: Tvisvar fyrir besta rapplagið

NM: Tíu sinnum fyrir plötur, lög og fleira.

BET verðlaun fyrir besta kvenrapparann

RM: Ein verðlaun árið 2005

NM: Sjö verðlaun frá árinu 2010 til 2016

Followers á Instagram og Twitter

RM: 3.7 milljónir á Instagram og 240 þúsund á Twitter

NM: 75 milljónir á Instagram og 20 milljón á Twitter






Fleiri fréttir

Sjá meira


×