Lífið fór því á stúfana og kynnti sér Rósu Björk til hlítar, og komst að ýmsu sem eflaust margir vissu ekki um þessa hæfileikaríku og skeleggu konu.

1. Fermdist með fréttamanni
Rósa Björk Brynjólfsdóttir fæddist árið 1975 og fermdist í Hjallasókn sunnudaginn 23. apríl árið 1989.Meðal þeirra sem fermdust með Rósu var fréttamaðurinn Gunnar Reynir Valþórsson, sem hefur vakið athygli fyrir fagmannlegan fréttaflutning í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

2. Íslandsmeistari í fótbolta
Rósa var liðtæk í boltanum á sínum yngri árum, en mikið af okkar hæfileikaríkasta fólki hefur einmitt fengið útrás fyrir keppnisskapið í ýmsum hópíþróttum.Rósa náði góðum árangri í knattspyrnu og varð til dæmis Íslandsmeistari í 2. flokki kvenna með Kópavogsliðinu Breiðabliki árið 1992.

3. Ofurtolla, já takk!
Í liðnum Fimm á förnum vegi í Alþýðublaðinu í apríl árið 1995 voru fimm einstaklingar spurðir hvort þeir studdu ofurtolla á influttar landbúnaðarvörur.Ekki stóð á svörunum hjá Rósu og sagði hún einfaldlega:
„ Já, ég styð þá. Ég tel það nauðsynlegt til að vernda íslenska landbúnað.“

4. Je m’appelle Rósa
Rósa náði sér í DELF-próf í frönsku frá Université de Stendhal árið 1996, ári eftir að hún lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík.Hún ku vera ansi sleip í frönskunni og sýndi góða takta í samkeppni um bestu viðskiptafrönskuna árið 1999.
Rósa náði þó ekki að bera sigur úr býtum, en hlaut viðurkenningu og bókaverðlaun sem afhent voru á veitingahúsinu Lækjarbrekku.

5. Dreymdi um að vera bóndi í eyðifirði
VG-liðinn hefur komið víða við í fjölmiðlaheiminum, bæði hér heima og erlendis. Hún vann við dagskrárgerð á RÚV, Rás 2, NFS og Stöð 2 svo fátt eitt sé nefnt og var fréttaritstjóri hjá sjónvarpsstöðinni France 24. Þá sinnti hún einnig starfi fréttaritstjóra og fréttaritara á Íslandi fyrir Al Jazeera, TF1, BBC og fleiri erlendar fréttastöðvar áður en hún dembdi sér í stjórnmálin af fullum krafti.Árið 2002 stjórnaði hún þættinum Hvernig sem viðrar ásamt Vilhelmi Antoni Jónssyni, betur þekktur sem Villi naglbítur, þar sem þau tvö ferðuðust um landið vítt og breitt. Rósa stóð sig með stakri prýði í þáttunum enda með leiðsögumannapróf frá Leiðsöguskóla Íslands og gönguleiðsagnapróf. Þá vann hún í nokkur ár sem leiðsögumaður á hálendi Íslands.
Í viðtali við Morgunblaðið sama ár, í tengslum við þættina, sagðist Rósa helst vilja vera bóndi í eyðifirði ef hún væri ekki þáttarstjórnandi. Það er spurning hvort sá draumur rætist nú í ljósi nýjustu fregna úr herbúðum VG.