Fastir pennar

Gefum þeim efnin

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Skaðaminnkandi verkefni hafa löngu sannað gildi sitt. Með skaðaminnkun er átt við aðgerðir til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu án þess að hafa það að markmiði að draga úr eða binda enda á neysluna sjálfa.

Með því að útvega þeim sem sprauta sig aðgang að hreinum nálum, sprautum, verjum og öðrum hreinlætisvörum er dregið úr HIV og lifrarbólgusmiti. Þeim jaðarsettu einstaklingum sem sprauta sig með fíkniefnum í æð er veitt lágmarksþjónusta svo þeir geti neytt fíkniefna á öruggari hátt og varið sjálfa sig og aðra.

Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi verkefni á vegum Rauða krossins í Reykjavík. Árangurinn af starfi Frú Ragnheiðar verður aldrei metinn til fjár og ljóst er að án þessa verkefnis væru skjólstæðingar verkefnisins í reynd nær umkomulausir í íslensku heilbrigðiskerfi. Mikil þörf er fyrir þessa þjónustu því það eru um 500-550 virkir fíkniefnaneytendur sem sprauta vímuefnum í æð samkvæmt tölum SÁÁ. Langflestir þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu.

Í fíkniefnaskýrslu Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2017 kemur fram að á heimsvísu megi rekja 190 þúsund ótímabær dauðsföll til fíkniefnaneyslu á ári hverju. Flest þeirra vegna notkunar á ópíóðum. Í fyrra létust 25 einstaklingar hér á landi úr eitrun vegna notkunar lyfja eða fíkniefna. Þar af voru 17 dauðsföll vegna ópíóða og hafa þau aldrei verið fleiri.

Það er orðið löngu tímabært fyrir Íslendinga að taka næsta skref þegar skaðaminnkandi verkefni eru annars vegar. Ofskömmtun er mikið vandamál hjá þeim sem hafa ánetjast ópíóðum og sérstaklega hjá þeim sem nota þá í æð. Lyfið naloxone er algjörlega skaðlaust en hefur þá virkni að það kemur í veg fyrir að fólk deyi úr ofskömmtun á ópíóðum. Sjúkrabílar og spítalar hér heima eru búnir þessu lyfi. Rauði krossinn vill að naloxone verði aðgengilegt hjá Frú Ragnheiði og dreift til skjólstæðinga samhliða fræðslu um endurlífgun en það hefur ekki gengið eftir því naloxone er lyfseðilsskylt lyf. Annað mikilvægt úrræði eru svokölluð neyslurými þar sem fólk getur sprautað sig í öruggu og hreinu umhverfi. Á síðasta ári voru 74 slík rými í evrópskum borgum og hafa þau skilað mjög góðum árangri. Enginn hefur til dæmis látist úr ofskömmtun í þessum rýmum. Hvers vegna hafa slík rými ekki verið sett upp í Reykjavík?

Aðgengi að naloxone og opnun neyslurýma eru mikilvæg úrræði en við þurfum að ganga lengra. Þeir sem nota vímuefni í æð eru jaðarsettir einstaklingar sem heyja stöðuga lífsbaráttu. Hver dagur er stríð til að nálgast næsta skammt. Einfaldast væri ef stjórnvöld myndu tryggja þeim sem lengst eru leiddir í fíkn þau efni sem þeir þurfa en ekki bara hreinar nálar og sprautur. Þessir einstaklingar gætu þá nálgast lyfin í heilbrigðisúrræði sem ynnu eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þetta myndi aftengja í einu vetfangi svartan markað fyrir metýlfenídat lyf og ópíóða, fækka fíkniefnatengdum afbrotum, fækka ofbeldismálum og minnka neyð þess hóps sem sprautar fíkniefnum í æð.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×