Enska veikin Guðmundur Andri Thorsson skrifar 29. maí 2017 07:00 Það er alveg satt sem aðstandendur Heimilissýningarinnar í Laugardal sögðu við Eirík Rögnvaldsson prófessor: „Hin undursamlega heimilissýning“ hljómar ekki nógu vel á íslensku – ekki heldur „Stórkostlega heimilissýningin“: „The amazing home show“ fangar betur það sem þeir ætla sér. Það er nefnilega erfitt að skruma á íslensku. Hún er svo gagnsæ. Við höfum þrátt fyrir allt svo sterka tilfinningu fyrir orðunum í móðurmálinu. Við skiljum enn þá hvernig mörg orðin í íslensku eru hugsuð og sett saman og það er erfiðara að hrúga saman merkingarlitlum lýsingarorðum en í alþjóðamálinu ensku.Mölkúlulykt Sjálfur hef ég aldrei alveg skilið þessar heimilissýningar; það er svolítið eins og að borga sig inn til að skoða IKEA eða klæða sig í sparifötin á sunnudegi til að fara með fjölskylduna í Húsasmiðjuna. Mig rámar í að þessar sýningar hafi tíðkast í þá gömlu gráu daga þegar fátt var við að vera og ekkert æsilegra í boði en að fara og skoða mublur í Laugardalshöllinni, og kannski apagrey hímandi í búri og trúðar að fremja kúnstir til að laða okkur að, man það ekki; held þó að þetta sýni hversu auðginnt vesalings þjóðin var á sjöunda og áttunda áratugnum. Það tilheyrir einhverjum öðrum tíma og öðru samfélagi að ráfa af fúsum og frjálsum vilja um milli bása og fá bæklinga um eldhúsinnréttingar. Sennilega þess vegna sem aðstandendur gripu til þess örþrifaráðs að nota þessa amerískustu af öllum amerískum upphrópunum – amazing! Má vera að þeim hafi fundist mölkúlulykt af hinu íslenska heiti, eða öllu heldur að íslenskan næði ekki að breiða yfir mölkúlulyktina sem óneitanlega er af svona sýningu. Af umræðu að dæma um nafngiftina virðist nokkuð vafamál að það hafi tekist, en óneitanlega er hún svolítið spaugileg.Í öfuga átt Hið sama verður naumast sagt um hitt enskuhneykslið í liðinni viku. Og þó. Það má brosa yfir því afreki hjá forvígismönnum Flugfélags Íslands að berja saman nafn sem ekki er nokkur vegur að muna eða skilja. Heitið er óvenju óþjált í munni og kauðsk orðaröð gerir að verkum að manni finnst eins og maður sé alltaf að segja nafnið í öfuga átt, sem óneitanlega er óþægilegt fyrir flugfélag. Manni skilst að þarna hafi ráðið vilji til að koma til móts við gríðarlegan fjölda erlendra ferðamanna sem ku ferðast með þessu flugfélagi, sem annars flytur nær eingöngu opinbera starfsmenn milli landshluta að sinna skyldum sínum, og verðlagningin eftir því. Kannski að menn hafi séð fyrir sér túrista koma inn á til dæmis Akureyrarflugvöll og ekki vita sitt rjúkandi ráð út af þessu íslenska heiti, ekkert vita hvert þeir ættu að snúa sér, fyndu ekki flugfélagið, innskráningarborðið eða jafnvel flugvélina sjálfa. Það er ekki gott að vita hvernig forstjórar hugsa. Kannski langaði þá bara að stýra fyrirtæki með ensku nafni – fannst það meira fullorðins, meira alvöru. Kannski finnst þeim sjálfum íslenskan hljóma torkennilega. En hafi það ekki verið tómt yfirvarp að hér þyrfti að koma til móts við útlendinga hefði einhver kannski getað bent viðkomandi á að málið mætti leysa með skammstöfunum þyki það óviðurkvæmilegur dónaskapur að hafa uppi íslensk heiti: FÍ, og svo gamla flotta merkið. Á ensku mætti svo hafa slagorðið: Fly with FI sem rímar skemmtilega. Jafnvel hefði mátt lengja nafn félagsins og kalla það Flugfélag Íslands og nágrennis, enda hefur félagið haldið uppi ferðum til Grænlands. Þá yrði skammstöfunin FÍN, sem væri aldeilis fínt; og á ensku yrði það borið fram sem fæn; kannski svolítið erfitt gagnvart spænsku- og frönskumælandi fólki og kynni að vekja ugg um að nú sé haldið í hinstu för, en það hlyti að vera hægt að leysa það einhvern veginn… Aðalatriðið er að vilja tala íslensku. Það á að vera sjálfsagður metnaður hjá forsvarsfólki íslenskra fyrirtækja að nota íslensku, hugsa út frá íslenskunni, láta reyna á hana, hafa hana sem sitt daglega mál. Að sjálfsögðu notum við svo önnur mál þegar svo ber undir og fólk óskar þess til að geta talað við okkur sem jafningjar. Íslenskan er tungumál þessa þjóðarkrílis, hún er þráðurinn sem liggur gegnum aldirnar og tengir mannlíf hér og nú við mannlíf hér og þá. Slíkt er ómetanlegt. Stundum finnst manni að íslenskan hafi aldrei verið meira notuð en nú, aldrei á fjölbreytilegri hátt og við jafn fjölbreyttar aðstæður; en stundum heyrir maður líka fólk tala sem augljóslega hugsar á ensku, og það hljómar eins og tungumálið sé einhvern veginn að molna uppi í þessu fólki. Og maður verður svolítið uggandi um þessa sérvisku í heiminum; að tala þetta forna mál, þar sem orðin eru svo gegnsæ að það er naumast hægt að skruma nema grípa til enskunnar… Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Það er alveg satt sem aðstandendur Heimilissýningarinnar í Laugardal sögðu við Eirík Rögnvaldsson prófessor: „Hin undursamlega heimilissýning“ hljómar ekki nógu vel á íslensku – ekki heldur „Stórkostlega heimilissýningin“: „The amazing home show“ fangar betur það sem þeir ætla sér. Það er nefnilega erfitt að skruma á íslensku. Hún er svo gagnsæ. Við höfum þrátt fyrir allt svo sterka tilfinningu fyrir orðunum í móðurmálinu. Við skiljum enn þá hvernig mörg orðin í íslensku eru hugsuð og sett saman og það er erfiðara að hrúga saman merkingarlitlum lýsingarorðum en í alþjóðamálinu ensku.Mölkúlulykt Sjálfur hef ég aldrei alveg skilið þessar heimilissýningar; það er svolítið eins og að borga sig inn til að skoða IKEA eða klæða sig í sparifötin á sunnudegi til að fara með fjölskylduna í Húsasmiðjuna. Mig rámar í að þessar sýningar hafi tíðkast í þá gömlu gráu daga þegar fátt var við að vera og ekkert æsilegra í boði en að fara og skoða mublur í Laugardalshöllinni, og kannski apagrey hímandi í búri og trúðar að fremja kúnstir til að laða okkur að, man það ekki; held þó að þetta sýni hversu auðginnt vesalings þjóðin var á sjöunda og áttunda áratugnum. Það tilheyrir einhverjum öðrum tíma og öðru samfélagi að ráfa af fúsum og frjálsum vilja um milli bása og fá bæklinga um eldhúsinnréttingar. Sennilega þess vegna sem aðstandendur gripu til þess örþrifaráðs að nota þessa amerískustu af öllum amerískum upphrópunum – amazing! Má vera að þeim hafi fundist mölkúlulykt af hinu íslenska heiti, eða öllu heldur að íslenskan næði ekki að breiða yfir mölkúlulyktina sem óneitanlega er af svona sýningu. Af umræðu að dæma um nafngiftina virðist nokkuð vafamál að það hafi tekist, en óneitanlega er hún svolítið spaugileg.Í öfuga átt Hið sama verður naumast sagt um hitt enskuhneykslið í liðinni viku. Og þó. Það má brosa yfir því afreki hjá forvígismönnum Flugfélags Íslands að berja saman nafn sem ekki er nokkur vegur að muna eða skilja. Heitið er óvenju óþjált í munni og kauðsk orðaröð gerir að verkum að manni finnst eins og maður sé alltaf að segja nafnið í öfuga átt, sem óneitanlega er óþægilegt fyrir flugfélag. Manni skilst að þarna hafi ráðið vilji til að koma til móts við gríðarlegan fjölda erlendra ferðamanna sem ku ferðast með þessu flugfélagi, sem annars flytur nær eingöngu opinbera starfsmenn milli landshluta að sinna skyldum sínum, og verðlagningin eftir því. Kannski að menn hafi séð fyrir sér túrista koma inn á til dæmis Akureyrarflugvöll og ekki vita sitt rjúkandi ráð út af þessu íslenska heiti, ekkert vita hvert þeir ættu að snúa sér, fyndu ekki flugfélagið, innskráningarborðið eða jafnvel flugvélina sjálfa. Það er ekki gott að vita hvernig forstjórar hugsa. Kannski langaði þá bara að stýra fyrirtæki með ensku nafni – fannst það meira fullorðins, meira alvöru. Kannski finnst þeim sjálfum íslenskan hljóma torkennilega. En hafi það ekki verið tómt yfirvarp að hér þyrfti að koma til móts við útlendinga hefði einhver kannski getað bent viðkomandi á að málið mætti leysa með skammstöfunum þyki það óviðurkvæmilegur dónaskapur að hafa uppi íslensk heiti: FÍ, og svo gamla flotta merkið. Á ensku mætti svo hafa slagorðið: Fly with FI sem rímar skemmtilega. Jafnvel hefði mátt lengja nafn félagsins og kalla það Flugfélag Íslands og nágrennis, enda hefur félagið haldið uppi ferðum til Grænlands. Þá yrði skammstöfunin FÍN, sem væri aldeilis fínt; og á ensku yrði það borið fram sem fæn; kannski svolítið erfitt gagnvart spænsku- og frönskumælandi fólki og kynni að vekja ugg um að nú sé haldið í hinstu för, en það hlyti að vera hægt að leysa það einhvern veginn… Aðalatriðið er að vilja tala íslensku. Það á að vera sjálfsagður metnaður hjá forsvarsfólki íslenskra fyrirtækja að nota íslensku, hugsa út frá íslenskunni, láta reyna á hana, hafa hana sem sitt daglega mál. Að sjálfsögðu notum við svo önnur mál þegar svo ber undir og fólk óskar þess til að geta talað við okkur sem jafningjar. Íslenskan er tungumál þessa þjóðarkrílis, hún er þráðurinn sem liggur gegnum aldirnar og tengir mannlíf hér og nú við mannlíf hér og þá. Slíkt er ómetanlegt. Stundum finnst manni að íslenskan hafi aldrei verið meira notuð en nú, aldrei á fjölbreytilegri hátt og við jafn fjölbreyttar aðstæður; en stundum heyrir maður líka fólk tala sem augljóslega hugsar á ensku, og það hljómar eins og tungumálið sé einhvern veginn að molna uppi í þessu fólki. Og maður verður svolítið uggandi um þessa sérvisku í heiminum; að tala þetta forna mál, þar sem orðin eru svo gegnsæ að það er naumast hægt að skruma nema grípa til enskunnar…