Hugsjónir á ís Magnús Guðmundsson skrifar 11. janúar 2017 07:00 Frosthörkurnar sem gengið hafa yfir meginland Evrópu að undaförnu og ekki sér fyrir endann á virðast eiga sér táknræna hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Að minnsta kosti ef horft er til kynningar á nýjum stjórnarsáttmála sem fram fór í Gerðarsafni í gær. Út frá þeim sáttmála þá virðist Bjarni Benediktsson, væntanlegur forsætisráðherra, hafa haft bæði tögl og hagldir í samningunum við Bjarta framtíð og Viðreisn. Tvo Evrópusinnaða flokka, Viðreisn er skilgetinn afkomandi Evrópudraumsins, sem samþykktu að halda málinu á ís. En það mun vora á meginlandi Evrópu, blessunarlega, en samkvæmt sáttmálanum verður málið á ís allt fram á seinni hluta kjörtímabilsins. Óttarr Proppé tók ómakið af Benedikt með því að svara fyrir þessa stefnu og sagði alla káta með niðurstöðuna í ljósi óvissunnar í Evrópu um þessar mundir. Af hverju í ósköpunum er þetta þá lykilatriði á stefnuskrá flokkanna ef viljinn er ekki meiri en þetta? Það getur verið ágætt að hafa í huga hvernig Björt framtíð og Viðreisn skilgreindu sig á rófi stjórnmálanna fyrir kosningar. Það er því erfitt að verjast þeirri hugsun þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður að leiðin að þessu stjórnarsamstarfi felist í því, að stóru mál tvíburabandalags Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verða tekin til skoðunar svona þegar á líður. Ekki verður hróflað við fjárlögunum sem Bjarni tekur með sér í forsætisráðuneytið en Benedikt fær að byrja að vinna að fimm ára áætlun, á fjögurra ára kjörtímabili, og á því eflaust eftir að hafa ærinn starfa. Og það veit þjóðin að það bíður væntanlegs heilbrigðisráðherra, Óttars Proppé, gríðarleg áskorun við að endurreisa heilbrigðiskerfið. Til þess þarf meira en langtímaáætlun um nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut og að „auka virkni“ kerfisins svo vitnað sé til orða Óttars. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins hlýtur að finna kuldahroll við þessi orð „aukin virkni“ svona ef horft til þess sem það hefur mátt þola í mörg undangengin ár. Til þess að endurreisa heilbrigðiskerfið þarf fjármagn og það þolir enga bið. Fjármagn sem hlýtur að vera til fyrst að hér er geðveikt góðæri. Þannig virðist það ekki aðeins eiga að vera Evrópumálin sem eiga að húka áfram á köldum klaka. Mikill styr hefur staðið um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál en þaðan er tæpast stórtíðinda að vænta sem felur kannski í sér ákveðinn létti fyrir stóra aðila á þeim mörkuðum. Málin verða könnuð, skoðuð, rædd og jafnvel sett í nefnd þegar frá líður. Þetta er svo kunnuglegt að þetta gæti fjallað um stjórnarskrármálið. Frystitækni væntanlegrar ríkisstjórnar virðist líka ná til þeirra sem hvað verst eru settir í íslensku samfélagi á borð við öryrkja og hina verst settu á meðal aldraðra. Þessum hópum hlýtur stundum að líða dáldið eins og þeim Estragon og Vladimir í Beðið eftir Godot eftir Beckett: „Ekkert gerist, enginn kemur, enginn fer, þetta er hræðilegt.“ Málið er að staða þeirra verst settu batnar ekkert þó svo betur sé gert við þá sem hafa starfsorku, starfsgetu og tækifæri. Það er aðeins takmarkaður hluti sem nýtur slíkrar áætlaðrar hagræðingar og fólk á að fá að lifa með reisn en ekki við að bíða úti í kuldanum eftir mannsæmandi kjörum.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun
Frosthörkurnar sem gengið hafa yfir meginland Evrópu að undaförnu og ekki sér fyrir endann á virðast eiga sér táknræna hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Að minnsta kosti ef horft er til kynningar á nýjum stjórnarsáttmála sem fram fór í Gerðarsafni í gær. Út frá þeim sáttmála þá virðist Bjarni Benediktsson, væntanlegur forsætisráðherra, hafa haft bæði tögl og hagldir í samningunum við Bjarta framtíð og Viðreisn. Tvo Evrópusinnaða flokka, Viðreisn er skilgetinn afkomandi Evrópudraumsins, sem samþykktu að halda málinu á ís. En það mun vora á meginlandi Evrópu, blessunarlega, en samkvæmt sáttmálanum verður málið á ís allt fram á seinni hluta kjörtímabilsins. Óttarr Proppé tók ómakið af Benedikt með því að svara fyrir þessa stefnu og sagði alla káta með niðurstöðuna í ljósi óvissunnar í Evrópu um þessar mundir. Af hverju í ósköpunum er þetta þá lykilatriði á stefnuskrá flokkanna ef viljinn er ekki meiri en þetta? Það getur verið ágætt að hafa í huga hvernig Björt framtíð og Viðreisn skilgreindu sig á rófi stjórnmálanna fyrir kosningar. Það er því erfitt að verjast þeirri hugsun þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður að leiðin að þessu stjórnarsamstarfi felist í því, að stóru mál tvíburabandalags Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verða tekin til skoðunar svona þegar á líður. Ekki verður hróflað við fjárlögunum sem Bjarni tekur með sér í forsætisráðuneytið en Benedikt fær að byrja að vinna að fimm ára áætlun, á fjögurra ára kjörtímabili, og á því eflaust eftir að hafa ærinn starfa. Og það veit þjóðin að það bíður væntanlegs heilbrigðisráðherra, Óttars Proppé, gríðarleg áskorun við að endurreisa heilbrigðiskerfið. Til þess þarf meira en langtímaáætlun um nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut og að „auka virkni“ kerfisins svo vitnað sé til orða Óttars. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins hlýtur að finna kuldahroll við þessi orð „aukin virkni“ svona ef horft til þess sem það hefur mátt þola í mörg undangengin ár. Til þess að endurreisa heilbrigðiskerfið þarf fjármagn og það þolir enga bið. Fjármagn sem hlýtur að vera til fyrst að hér er geðveikt góðæri. Þannig virðist það ekki aðeins eiga að vera Evrópumálin sem eiga að húka áfram á köldum klaka. Mikill styr hefur staðið um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál en þaðan er tæpast stórtíðinda að vænta sem felur kannski í sér ákveðinn létti fyrir stóra aðila á þeim mörkuðum. Málin verða könnuð, skoðuð, rædd og jafnvel sett í nefnd þegar frá líður. Þetta er svo kunnuglegt að þetta gæti fjallað um stjórnarskrármálið. Frystitækni væntanlegrar ríkisstjórnar virðist líka ná til þeirra sem hvað verst eru settir í íslensku samfélagi á borð við öryrkja og hina verst settu á meðal aldraðra. Þessum hópum hlýtur stundum að líða dáldið eins og þeim Estragon og Vladimir í Beðið eftir Godot eftir Beckett: „Ekkert gerist, enginn kemur, enginn fer, þetta er hræðilegt.“ Málið er að staða þeirra verst settu batnar ekkert þó svo betur sé gert við þá sem hafa starfsorku, starfsgetu og tækifæri. Það er aðeins takmarkaður hluti sem nýtur slíkrar áætlaðrar hagræðingar og fólk á að fá að lifa með reisn en ekki við að bíða úti í kuldanum eftir mannsæmandi kjörum.Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. janúar.