Viðskipti innlent

Marple-málið: „Þungt að horfa upp á það að umbjóðandi minn hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar sem er einn af sakborningum í Marple-málinu, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar frá því í dag en rétturinn ómerkti þá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur vegna vanhæfis sérfróðs meðdómanda í málinu, Ásgeirs Brynjar Torfasonar, en hann er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

„Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að meðdómandi hafi verið vanhæfur en auðvitað er þungt að horfa upp á það að umbjóðandi minn hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir héraðsdómi. Þetta eru grundvallarréttindi hjá hverjum borgara sem eru tryggð í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig að um leið og maður fagnar niðurstöðu Hæstaréttar er líka þungbært að horfa upp á það,“ sagði Kristín í samtali við fréttastofu eftir uppkvaðningu dómsins í dag.

Aðspurð hvert framhald málsins verði nú segir hún að nú verði að nýju boðað til aðalmeðferðar og þá fara aftur fram skýrslutökur og málflutningur í héraði.

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg og Skúli Þorvaldsson, sem ákæruvaldið heldur fram að hafi átt félagið Marple Holding en hann hefur mótmælt við meðferð málsins, voru allir dæmdir til refsingar í héraði en Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð.

Í málinu ákærði sérstakur saksóknari fjórmenningana ýmist fyrir fjárdrátt, hlutdeild í fjárdrætti eða hylmingu. Ákæran grundvallaðist á þremur ætluðum brotum. Í fyrsta lagi 3 milljarða króna millifærslu Kaupþings til félagsins Marple Holding í Lúxemborg hinn 19. desember 2007.

Vegna hennar voru Hreiðar Már og Guðný Arna aðallega ákærð fyrir fjárdrátt og Magnús ákærður fyrir hlutdeild í broti þeirra. Þá var Skúli ákærður aðallega fyrir hylmingu með því að halda ólöglega þessum peningum og taka þannig þátt í auðgunarbroti. Var Skúli sýknaður af þessu í héraði en dæmdur fyrir peningaþvætti af gáleysi.

Í öðru lagi var um að ræða aðra rúmlega þriggja milljarða króna millifærslu frá Kaupþingi til Marple Holding sem var frágengin hinn 1. júlí 2008. Hreiðar Már og Guðný voru einnig ákærð fyrir fjárdrátt vegna þessarar millifærslu, Magnús fyrir hlutdeild í fjárdrætti og Skúli fyrir hylmingu. Hann var sýknaður af þeim ákærulið.

Í þriðja lagi er um að ræða kaup Kaupþings banka á skuldabréfum útgefin af bankanum sjálfum í sjö skuldabréfaflokkum með áföllnum vöxtum af Marple Holding samtals upp á 57,4 milljónir evra annars vegar og 45,3 milljónir dollara hins vegar.

Var kaupverðið langt yfir markaðsverði samkvæmt ákærunni og olli Kaupþingi fjártjóni. Guðný Arna og Hreiðar Már voru ákærð fyrir umboðssvik vegna þess og Magnús fyrir hlutdeild í brotum þeirra.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lektor við Háskóla Íslands vanhæfur til að dæma í Marple-málinu

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í október 2015 í Marple-málinu svokallaða var í dag ómerktur í Hæstarétti vegna vanhæfis sérhæfðs meðdómara í málinu, Ásgeirs Brynjars Torfasonar en hann er lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×