Bílar

Er þetta nýi BMW X7 jeppinn?

Finnur Thorlacius skrifar
BMW mun sýna stærri jeppa en fyrirtækið hefur áður smíðað á bílasýningunni í Frankfurt, sem hefst í næstu viku. Eðlilega ber hann stafina X7 og fylgir í kjölfar X5, X3 og X1. Þetta er 7 sæta jeppi af stærri gerðinni og líklega ætlaður helst til góðrar sölu í Bandaríkjunum þar sem mikil eftirspurn er eftir svo stórum bílum.

Svo virðist sem BMW hafi átt í nokkrum vandræðum með að hanna laglegt nýrnalaga grillið á svo stóran bíl og lítur það vægast sagt einkennilega út á svo stórum framenda. Ef marka má þessar myndir sem sagt er að hafi lekið út af nýja bílnum er að auki eins og búið sé að setja teikningu af öðrum BMW bíl í ljósritunarvél og stækka hann um svona 30%. Því má helst vona að þessar myndir séu ekki hinar réttu af þessum nýja stóra jeppa.

Lengi hefur verið beðið eftir stórum jeppa frá BMW og víða hefur BMW X5 jeppinn talist full smár. BMW hefur enda margsinnis úttalað sig um framleiðslu slíks jeppa og nú er semsagt komið að því að kynna hann í Frankfurt. Á myndunum af bílnum má einnig sjá að gert er ráð fyrir hleðsluinnstungu svo búast má við því að hann verði í boði sem tengiltvinnbíll og kemur það fæstum á óvart.

Stór og stæðilegur en einkennilegur 90 gráðu hliðarlisti.
Einnig 90 gráðu listar að aftan.
Hinn smekklegasti að innan.





×