Umhverfisstofnun hefur ráðið Björn Þorláksson til starfa sem sérfræðing á sviði upplýsingamála. Starfið var auglýst í desember og sótti 81 um.
Í tilkynningu stofnunarinnar kemur fram að Björn á langan feril að baki sem fjölmiðlamaður. Hann hefur verið fréttastjóri og ritstjóri og vann um árabil að dagskrárgerð og fréttum í sjónvarpi, m.a. á Ríkisútvarpinu og Stöð 2. Hann er með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, BA-gráðu í þjóðfélagsfræðum frá Háskólanum á Akureyri og MA-gráðu í fjölmiðlafræði og blaðamennsku frá Háskóla Íslands.
Björn mun að mestu sinna starfinu á starfstöð Umhverfisstofnunar á Borgum á Akureyri. Stöðvar Umhverfisstofnunar eru alls níu og ná út um allt land. Eiginkona Björns er Arndís Bergsdóttir doktorskandídat og safnafræðingur. Þau eiga fimm börn.
Guðfinnur Sigurvinsson lét nýverið af störfum sem upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.
