Lífið

Missti framan af putta í X-Factor: Voru fráskilin í 16 ár en Inga Sæland fór á skeljarnar í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Inga og Ólafur ætla gifta sig aftur um jólin.
Inga og Ólafur ætla gifta sig aftur um jólin.
Inga Sæland kom eins og stormsveipur inn í íslenska pólitík og er einn af sigurvegurum kosningahelgarinnar, en Flokkur Fólksins kom fjórum mönnum inn á þing. Inga Sæland var til umfjöllunar í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

Inga fæddist á Ólafsfirði þann 3. ágúst árið 1959. Hún er næstyngst fjögurra systkina og dóttir þeirra Ástvalds Einars Steinssonar, sjómanns, og Sigríðar Sæland Jónsdóttur húsmóður. Hún er fráskilin fjögurra barna móðir og amma þriggja barna. Inga var nánast alveg blind fyrstu tvö ár ævi sinnar.

„Manni var strítt svolítið mikið út af því að maður var kannski ekki alveg eins og allir hinir,“ segir Inga.

En hefur þetta haft mikil áhrif á líf hennar?

„Ég var stundum að fara sækja börnin mín út í sandkassann og þá voru þetta kannski bara börnin hennar Erlu í næsta húsi og mínir voru bara búnir að stinga af.“

Inga hefur unun af söng og hefur keppt í hinum ýmsu söngkeppnum.

„Ég er algjörlega óskorin karaoke-drottning og það í góðri merkingu. Ég á karaoke-græjur úti í skúr, svona alvöru græjur.“

Inga stóð sig vel í X-Factor.
Hún hefur unnið sem söngkona á Spáni.

„Við ákváðum það að fara út með börnin og vorum þarna í tvö sumur. Við fengum húsnæði og borðuðum á staðnum hjá karlinum. Við vorum því nokkuð sjálfbær á Spáni, en vorum kannski ekki að þéna peninga á söngnum.“

Það var í X-Factor á Stöð 2 sem Inga kom fyrir sjónir almennings og komst alla leið í úrslitin í Smáralind.

„Þetta var gaman en ég myndi ekki gera þetta aftur. Þetta var ansi dýrkeypt og ég missti framan af fingri í þáttunum. Við vorum að auglýsa einhvern bíl fyrir Heklu, minnir mig, og það bara skall hurð á minn fingur.“

Inga er með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, nam stjórnmálafræði og lauk BA prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Inga var gift Ólafi Má Guðmundssyni og eftir að hafa verið í sundur í sextán ár tóku þau saman nýverið aftur og stefna á það að gifta sig á ný um jólin.

„Við höfum alltaf verið vinir en ég verð að viðurkenna það að ég bað hans aftur núna í sumar og var að biðja hann um að giftast mér.“

Hér að neðan má sjá umfjöllun Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.