Enski boltinn

Conte ætlar sér að fá Lukaku ef Costa fer í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku skoraði fernu í síðasta leik.
Romelu Lukaku skoraði fernu í síðasta leik. vísir/getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, ætlar sér að fá Romelu Lukaku, framherja Everton, sem eftirmann Diego Costa ef spænski framherjinn yfirgefur Stamford Bridge í sumar.

Breska blaðið Daily Express heldur þessu fram en þó Costa hafi ákveðið að fara ekki til Kína í janúar eru orðrómar þess efnis í gangi að hann sé búinn að semja við kínverskt lið undir borðið og fari frá Lundúnarliðinu í sumar.

Lukaku hefur verið sjóðheitur með Everton í vetur. Hann er búinn að skora 16 mörk og leggja upp önnur fjögur í 23 leikjum. Fjögur markanna komu öll í síðasta leik þar sem bláliðar Liverpool-borgar unnu Bournemouth, 6-3, á heimavelli.

Fari Belgíski framherjinn til Chelsea verður það í annað sinn sem hann spilar fyrir liðið því hann var keyptur þangað frá Anderlecht árið 2011 en náði aldrei að festa sér sess. Lukaku á fimmtán leiki að baki fyrir Chelsea en honum tókst aldrei að skora mark fyrir liðið.

Conte er einnig sagður vilja fá hægri bakvörðinn Joao Cancelo frá Valencia en þessi 22 ára gamli portúgalski leikmaðurinn hefur spilað virkilega vel í spænsku 1. deildinni í vetur.

Hann hefur spilað fyrir öll yngri landslið Portúgal og þreytti frumraun sína með A-landsliðinu á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×