Innlent

SÁÁ vilja einir halda úti meðferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur Ari Arason forstjóri Sjúkratryggingar Íslands.
Steingrímur Ari Arason forstjóri Sjúkratryggingar Íslands. vísir/gva
SÁÁ var eini aðilinn sem lýsti yfir áhuga á að gera samning við Sjúkratryggingar Íslands um meðferð fyrir áfengissjúklinga. Fulltrúar SÁÁ verða í framhaldinu boðaðir til samningaviðræðna.

Eins og Fréttablaðið greindi frá hinn 11. júlí síðastliðinn auglýstu Sjúkratryggingar Íslands eftir meðferð fyrir áfengissjúklinga á EES-svæðinu. Það var gert á grundvelli nýrra laga um opinber innkaup. Samkvæmt lögunum er ýmis opinber þjónusta, svo sem félags- og heilbrigðisþjónusta sem áður var undanþegin útboðsskyldu orðin útboðsskyld.

Fresturinn til að lýsa yfir áhuga á að taka að sér verkefnið er runninn út. „En í sjálfu sér er kannski ekki knýjandi tímapressa á málinu þar sem er í gildi samningur milli aðila,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Strangt til tekið sé unnið eftir samningi sem er runninn út miðað við upphaflegu dagsetninguna, en í samningnum sé ákvæði um að hann haldi gildi sínu meðan báðir aðilar séu sáttir við þá skipan.

„Langtímasamningurinn hefur því umbreyst í skammtímasamning, en það er samningur í gildi og greiðslur fyrir þjónustuna hafa verið uppfærðar samkvæmt forsendum fjárlaga,“ bætir hann við.

Steingrímur Ari segir ákjósanlegast að nýr samningur við SÁÁ verði á bilinu þriggja til fimm ára langur. Fimm ár séu hámarkstími. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×