Gagnrýni

Dökkur Mozart er betri

Jónas Sen skrifar
Auryn-kvartettinn ásamt Ásdísi Valdimarsdóttir.
Auryn-kvartettinn ásamt Ásdísi Valdimarsdóttir. Visir/Vilhelm
Karlmenn á efri árum eru gjarnan í erfiðleikum með blöðruhálskirtilinn. Þeir þurfa þá oftar að fara á klósettið en aðrir. Mikil búbót var því fyrir Kammermúsíkklúbbinn að flytja í Hörpu úr Bústaðakirkju, þar sem hann hafði verið lengi. Í kirkjunni er bara eitt klósett fyrir almenning og gestir klúbbsins, sem flestir eru komnir við aldur, voru yfirleitt í mestu vandræðum í hléinu. Sem betur fer er nóg af klósettum í Hörpu!

Klúbburinn er sextugur um þessar mundir og var afmælinu fagnað um helgina. Mikið hefur gerst síðan hann varð til. Ásamt Tónlistarfélaginu sáluga var hann í lengri tíma eini vettvangurinn fyrir kammertónlist á Íslandi. Nú er öldin önnur, ýmsir kammerhópar eru hér starfandi og spila þeir víða um völl.

Tónleikar Kammermúsíkklúbbsins eru haldnir í Norðurljósum og eru venjulega fjölsóttir. Sú var raunin á laugardaginn, en sami tónlistarhópur kom líka fram daginn eftir. Á efnisskránni voru strengjakvintettar eftir Mozart; fyrri daginn nr. 1, 5 og 3, en nr. 4, 6 og 2 á sunnudeginum. Flytjendur voru hinn heimsþekkti Auryn-kvartett ásamt Ásdísi Valdimarsdóttur víóluleikara.

Kvintettarnir tveir fyrir hlé voru í dúr-tóntegund, en mollinn réð ríkjum í kvintettinum eftir hlé. Fyrir þá sem ekki vita er dúrinn bjartur og glaðlegur, en mollinn dapurlegur og myrkur. Stundum er sagt að Mozart sé betri í moll en í dúr, þótt vissulega séu til undantekningar. Undirritaður er á þessari skoðun; tónskáldið nær einhverri dýpt sem oft er fjarverandi í dúrnum. Hvað er fegurra en 40. sinfónían í g-moll, píanókonsertarnir nr. 20 og 24 í d- og c-moll, píanósónatan í a-moll eða fiðlusónatan í e-moll?

Það var alltént skemmtilegra á tónleikunum eftir hlé. Flutningurinn þar á undan var samt framúrskarandi, túlkunin var kraftmikil en stílhrein. Tæknilega séð örlaði aðeins á óhreinum tónum í fyrri kvintettinum, en þeir hurfu þegar hljóðfæraleikararnir voru komnir almennilega í gang. Kannski var leikurinn eilítið gleðisnauður, spilararnir voru eins og þaulreyndir bankamenn á viðskiptafundi, frekar en innblásnir listamenn.

Hinsvegar var flutningurinn á síðasta kvintettinum í g-moll eftir hlé þrunginn skáldavímu, tónlistin var háleit og unaðsleg. Fimmmenningarnir spiluðu eins og einn maður, samspilið var fágað og smáatriðin í tónmálinu nostursamlega útfærð. Hröð tónahlaup voru útfærð á óaðfinnanlegan hátt, hrynjandin var hárnákvæm og snörp, allar hendingar fagurlega mótaðar. Það var dásamleg upplifun.

Niðurstaða: Kvintettinn var nokkra stund að komast í gang, en svo héldu þeim engin bönd.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.