Lífið

Hetjur háloftanna

Stefán Pálsson skrifar
Fyrstu flugtilraunir fóru fram við erfiðar aðstæður og ljósmyndatæknin var ófullkomin. Þá kærðu fyrstu flugmennirnir sig ekki endilega um of mikla athygli. Líkurnar á að flugið mistækist illilega voru talsverðar, með tilheyrandi niðurlægingu og fyrstu flugvélasmiðirnir voru jú uppfinningamenn í harðri samkeppni og því smeykir um að keppinautar gætu stolið frá þeim hugmyndum og útfærslum.
Fyrstu flugtilraunir fóru fram við erfiðar aðstæður og ljósmyndatæknin var ófullkomin. Þá kærðu fyrstu flugmennirnir sig ekki endilega um of mikla athygli. Líkurnar á að flugið mistækist illilega voru talsverðar, með tilheyrandi niðurlægingu og fyrstu flugvélasmiðirnir voru jú uppfinningamenn í harðri samkeppni og því smeykir um að keppinautar gætu stolið frá þeim hugmyndum og útfærslum.
Árið 1894 birti dagblaðið Þjóðólfur grein um „Uppgötvanir framtíðarinnar“. Í pistlinum, sem sagður var byggja á grein úr norsku tímariti, var því haldið fram að þótt nítjánda öldin hefði fært manninum ótalmargar snjallar uppfinningar, mætti ætla að sú tuttugasta yrði enn glæsilegri eða í það minnsta ekki síðri.

Nítjándu öldinni fylgdu gufuskip, járnbrautir, símþræðir og notkun rafmagns, en að mati greinarhöfundar yrði stærsta verkefni nýrrar aldar vafalítið á sviði loftsiglinga, sem enn væru í barnæsku. Að áliti höfundar gæti framtíð flugsins aldrei verið í loftbátunum eða flugbelgjunum sem fyrri tilraunir höfðu einskorðast við. Þeim farartækjum yrði ekki stýrt, heldur ræki þau eftir vindum.

Loftför framtíðarinnar hlytu að vera flugvélar, það er farartæki sem færi af stað með eigin vélarkrafti – líklega af járnbrautarteinum – næði að taka á loft og héldist á flugi með breiðum og útþöndum vængjum og með einhvers konar skrúfu til að knýja það áfram.

Þessi ágæta lýsing á flugvélum framtíðarinnar bar vott um framsýni, en var þó engan veginn til marks um einstaka spádómsgáfu. Eðlisfræðin á bak við gerð flugvélarinnar var ágætlega þekkt og víða um lönd kepptust menn við að þróa slík tæki. Með gerð sífellt léttari og kraftmeiri mótora varð hugmyndin um fljúgandi vél raunhæfari. Benti höfundur á að nú væri fundið nýtt efni, álið eða „almín“ eins og það nefndist í greininni, sem breyta myndi öllum forsendum. Hið nýja efni væri létt og svipað silfri að lit. Loftför framtíðarinnar yrðu því skínandi hvít að lit og gljáandi líkt og silfurgripir.

Með hinum nýju efnum og kraftvélum yrðu flugvélar miklu hraðskreiðari en eimreiðar eða kröftugustu gufuskip. Þannig mætti búast við að meðalhraði þeirra yrði um 160 kílómetrar á klukkustund og flugtíminn frá Reykjavík til Akureyrar því um klukkustund og stundarfjórðungur.

Samfélagsleg áhrif hinnar nýju tækni yrðu margvísleg að mati greinarhöfundar. Þannig hlyti öll tollgæsla að hverfa úr sögunni, enda yrði vonlaust verk að koma í veg fyrir að flogið væri með bannaðan varning hvert á land sem er. Enn bjartsýnni var þó sá spádómur að tilkoma flugvélanna hlyti að útrýma styrjöldum í heiminum: „ef ófrið bæri að höndum millum þjóðanna, þá yrðu ótal flugdrekar sendir yfir löndin, til að dreifa „dynamít“ yfir fólkið, og mundi þá ófriðurinn skjótt til lykta leiddur. Það dytti víst engum í hug að fara í stríð upp frá því.“

Fyrstu tilraunir

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem orðið flugvél birtist á prenti í íslensku blaði. Áður höfðu birst smáfréttir af slíkum tækjum, svo sem af vél sem franskur hugleiksmaður átti að hafa smíðað árið 1891 og um svipað leyti var sagt frá því að uppfinningamaðurinn Thomas Edison hefði ákveðið að smíða flugvél. Á hinn bóginn sagði ekkert dagblað hérlendis frá því þegar Wright-bræður tókust á loft í grennd við bæinn Kitty Hawk í Norður-Karólínu þann 17. desember árið 1903.

Öllum uppflettiritum ber saman um að flugvél þeirra Orvilles og Wilburs Wright hafi verið sú fyrsta í sögunni. Eins og svo oft í tæknisögunni reynist sú mynd þó talsvert flóknari þegar farið er að rýna í hana.

Í fyrsta lagi kallar svarið við spurningunni um fyrstu flugvélina á ýmsar skilgreiningar. Menn höfðu vissulega lyft sér af yfirborði jarðar á undan Wright-bræðrum, til að mynda í hvers kyns loftbelgjum. Enn fyrr höfðu menn náð að svífa um lengri eða styttri vegalengdir með frumstæðum svifdrekum með því að hlaupa niður brekkur eða stökkva fram af klettum. Vafalítið hefur Frakkinn sem sagt var frá í íslenska blaðinu árið 1891 búið yfir einhvers konar svifflugu.

Aðrir hönnuðir reyndu að fara bil beggja og létu skjóta farartækjum sínum af stað, líkt og með valslöngvu, en höfðu vélbúnað til að knýja þær áfram á lofti. Flugtúrar þessir urðu hvorki langir í tíma né rúmi, flugmaðurinn hafði takmarkaða stjórn á vélinni og varla um mikinn lendingarbúnað að ræða. Fullhugar máttu því stundum greiða flugþrána dýru verði.

Svigrúmið til túlkunar á því hvað teljist nothæf flugvél er nokkuð breitt og því þarf ekki að koma á óvart þótt margir frumherjar séu nefndir til sögunnar. Við það bætist að sönnunarfærsla getur verið erfið. Fyrstu flugtilraunir fóru fram við erfiðar aðstæður og ljósmyndatæknin var ófullkomin. Þá kærðu fyrstu flugmennirnir sig ekki endilega um of mikla athygli. Líkurnar á að flugið mistækist illilega voru talsverðar, með tilheyrandi niðurlægingu og fyrstu flugvélasmiðirnir voru jú uppfinningamenn í harðri samkeppni og því smeykir um að keppinautar gætu stolið frá þeim hugmyndum og útfærslum.

Deilurnar um hverjir væru upphafsmenn flugsins hófust snemma. Annars vegar tengdust þær deilum um einkaleyfi, þar sem frumherjarnir reyndu að fá uppfinningar sínar skráðar. Gríðarlegir hagsmunir voru í húfi, enda talin mikil gróðavon í fluginu, ekki hvað síst í hernaðarskyni. Vísinda- og tæknisagnfræðingar þreytast ekki á að vara við þeirri skökku mynd sem einkaleyfakerfi samtímans vilja draga upp af tæknisögunni. Á meðan flestar uppfinningar byggja á fyrirmyndum og verkum forvera, ýta einkaleyfastofur og dómstólar uppfinningamönnum út í að þræta fyrir alla áhrifavalda og láta eins og sköpunarverk sín séu alfarið þeirra eigin hugarsmíð.

Hins vegar var það persónulegt metnaðarmál fyrstu fluggarpanna að fá afrekin viðurkennd og nöfnin skráð í sögubækurnar. Þá viðurkenningu var ekki endilega að finna hjá opinberum einkaleyfastofum, heldur vísindafélögum eða -söfnum. Í Bandaríkjunum var Smithsonian-stofnunin í mestum metum á sviði tæknisögunnar. Í hugum margra var stofnunin hálfgerður stóridómur þegar kom að því að viðurkenna vísinda- og tækniafrek.

Vald safnvarðanna

Wright-bræður freistuðu þess þegar árið 1910 að koma flugvél sinni á sýningu hjá Smithsonian. Stofnunin hafnaði boðinu, þar sem bræðurnir stóðu um þær mundir í stappi fyrir dómstólum vegna einkaleyfismála sem ekki þótti viðeigandi að Smith­sonian blandaði sér í. Þess utan vildu stjórnendur flugdeildar Smithsonian fremur hampa gömlum stjórnarmanni í stofnuninni, Samuel Langley, sem frumherja flugsins.

Vísindamaðurinn Langley var mun þekktari en hjólhestasmiðirnir Wright-bræður. Þannig höfðu íslenskir blaðalesendur heyrt af flugtilraunum hans þegar árið 1897. Fáeinum vikum fyrir flugferðina í Kitty Hawk 1903 höfðu Langley og félagi hans að sögn náð að slöngva vélknúnu flugfari út í Potomac-ána. Um áratug síðar endurgerðu starfsmenn Smithsonian vélina eftir teikningum Langleys og tókst að fljúga stutta vegalengd. Á þeim grunni lýsti stofnunin því yfir að Langley hefði smíðað fyrstu nothæfu flugvélina.

Wilbur Wright dó langt fyrir aldur fram árið 1912, en Orville bróðir hans lifði áfram til að verja arfleifð þeirra bræðra. Hann og stuðningsmenn hans héldu því fram að vél Langleys gæti ekki talist fullgerð flugvél og hefði verið stórlega betrumbætt við endursmíðina. Hann stóð fyrir sýningum á vél þeirra bræðra, þar á meðal á Vísindasafninu í Lundúnum.

Árið 1942 dró Smithsonian til baka fyrri yfirlýsingu sína um að flugvél Langleys væri sú fyrsta og árið eftir samþykkti Orville Wright að afhenda stofnuninni sína vél til varðveislu. Því samkomulagi fylgdi yfirlýsing um að Smithsonian viðurkenndi Wright-bræður sem frumherja flugsins. Þar með var björninn unninn og í dag hefur hvert skólabarn heyrt bræðranna getið.

En til eru þeir sem telja að með samkomulaginu við Orville Wright hafi Smithsonian dæmt sig úr leik sem óvilhallan matsaðila í málinu. Vél Wright-bræðra er nú um stundir einn vinsælasti sýningargripur stofnunarinnar og því freistandi fyrir sérfræðinga hennar að standa vörð um stöðu hennar sem fyrstu flugvélarinnar.

Samsæriskenningin um hlutdrægni Smithsonian er ofarlega í huga þeirra sem vilja halda á lofti minningu Gustaves Whitehead, vélasmiðs frá Conn­ecticut. Hann fæddist raunar í Þýskalandi og nefndist þá Gustav Weißkopf, en breytti nafninu eftir að hafa flust vestur um haf.

Weißkopf litli varð kornungur heillaður af flugi. Hann lærði vélfræði og sinnti hefðbundnum vélvirkjastörfum, en aldrei þó nema rétt til að geta fjármagnað þá ástríðu sína að reyna að smíða flugvél. Árin 1901-3 kvaðst hann nokkrum sinnum hafa náð að fljúga vélum sínum, nokkur hundruð metra í hvert sinn. Bæjarblaðið hans flutti fréttir af afrekinu og birti teikningu sem sögð var gerð eftir ljósmynd.

Áratugum síðar fóru sagnfræðingar á stúfana og höfðu upp á stórum hópi fólks sem sór þess eið að hafa séð sveitunga sinn fljúga. Fyrir nokkrum árum gerði ríkisþingið í Connecticut meira að segja samþykkt þess efnis að Gustave Whitehead hefði fyrstur manna flogið flugvél árið 1901.

Smithsonian-stofnunin og aðdáendur Wright-bræðra láta sér þó fátt um finnast. Að þeirra mati eru heimildirnar of ótraustar og allt eins líklegt að vitnin hafi einungis séð Whitehead fljúga einum af svifdrekum sínum. Þá sé frásögn Whiteheads með ólíkinda­blæ og engar sannanir fyrir þeirri staðhæfingu hans að Wright-bræður hafi heimsótt hann og stolið hugmyndum.

Hvað sem þingsályktunum í Conn­ecticut líður verður þess væntanlega langt að bíða að Gustave Whitehead verði almennt talinn frumkvöðull í flugi. Lítil blaðaúrklippa með grófri blýantsteikningu og fáeinir vitnisburðir mega sín lítils gegn glæstum sýningargrip á frægasta vísindasafni í heimi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×