Lífið

Líf og fjör í litun og klippingum

Elín Albertsdóttir skrifar
Steinunn Markúsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari í hárgreiðslu en hún er einnig menntaður stílisti og förðunarfræðingur.
Steinunn Markúsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari í hárgreiðslu en hún er einnig menntaður stílisti og förðunarfræðingur. MYND/ERNIR
Steinunn Markúsdóttir, hárgreiðslumeistari, förðunarfræðingur og stílisti, er margfaldur Íslandsmeistari og fylgist með því nýjasta í faginu.

Steinunn á átta verðlaunagripi eftir að hafa orðið Íslandsmeistari bæði í dömu- og herraklippingum. Þar að auki lenti hún í úrslitum Aveda Global Fashionista 2015 og 2016. Um sex þúsund keppendur tóku þátt í fyrra og um átta þúsund árið þar á undan en aðeins 21 vinnur til verðlauna. „Ég er ákaflega stolt af því að hafa komast í úrslit í þessari keppni. Það er mikill heiður,“ segir Steinunn. Hún starfar á Aveda hárstofunni í Faxafeni 9 og segir að það sé ánægja hennar með vörurnar sem hafi komið henni aftur til að vinna við fagið en Steinunn hefur starfað sem stílisti við auglýsingatökur. Meðal annars í stóru verkefni fyrir Samsung fyrirtækið. Hún er með breskan umboðsmann og hefur fengið margvísleg skemmtileg verkefni upp í hendurnar, bæði hér á landi og erlendis.

„Þegar ég kynntist Aveda vörunum heillaðist ég gjörsamlega. Þetta eru umhverfisvænar vörur sem fara vel með hárið og okkur fagfólkið. Vegna þeirra ákvað ég að fara aftur að vinna á gólfinu,“ segir hún. „Ég hef átt mjög góð samskipti við stjórnendur fyrirtækisins á heimsvísu um nýjustu línur í klippingum, litun og greiðslu. Við erum eins og ein stór fjölskylda. Ég fæ alltaf nýjustu upplýsingar um tískulitina sem eru í gangi hverju sinni,“ segir hún.

Sumarhárgreiðsla. Skemmtilegir litatónar og krullað hár.
Steinunn var spurð hvaða litir væru vinsælastir í sumar. Hún svaraði um hæl að pastellitir í hárið væru málið í sumar. „Það eru vissar breytingar í gangi en ekkert svakalega miklar. Það eru nýir pastellitir sem lífga upp á hárið; fjólublátt, grænt, blátt og svo baby-blond. Gráir tónar og þessi kalda blanda sem hefur verið vinsæl er að hverfa. Hlýir og mjúkir tónar detta inn,“ útskýrir Steinunn en tekur fram að ekki sé mjög auðvelt að lýsa þessum nýju litum. „Litirnir eru settir hér og þar í hárið,“ segir hún. „Þegar þessir nýju litir eru settir í hárið þarf að lýsa það fyrst og hreinsa gamla liti úr hárinu. Mjög skemmtilegur blær kemur á hárið við þessa breytingu. Sumar konur eru mjög óhræddar við að prófa eitthvað nýtt og velja mjög áberandi liti, jafnvel allan regnbogann. Þær sem eru mjög dökkhærðar hafa verið að setja fallega súkkulaðiliti yfir dökka litinn, aðeins út í gyllta og ljósa tóna.“

Steinunn segir að axlasítt hár sé mjög vinsælt um þessar mundir. Síða hárið er að fjúka. „Þungir toppar eru vinsælir, jafnvel krullur. Mér finnst hárstíllinn vera að detta svolítið inn í „nineties“ fíling. Flétturnar halda þó velli, þær eru enn í tísku og notaðar á margvíslegan máta. Ég hef fylgst töluvert með tískunni í Þýskalandi og á Ítalíu, en þar er mikið um fléttur. Svo er mjög skemmtileg breyting hjá strákunum. Þeir koma í permanent og skeggið er horfið. Hárið er aðeins síðara en það hefur verið. Mjög margir herrar koma í strípur en það var mjög vinsælt á diskó­árunum. Tískan er svolítið að fara í þá átt. Langmestu breytingarnar eru þó í litum og þeim vörum sem við hárgreiðslufólk erum að vinna með. Þar hafa orðið miklar framfarir. Það er alltaf skemmtilegt í vinnunni þegar svona breytingar verða.“

Dökkt hár með bláum tónum.
Steinunn segist ekki vera persónulegur stílisti en hefur gaman af því að gefa viðskiptavinum sínum góð ráð. „Ég er mest að vinna í auglýsingamálum en það eru ekkert mörg ár síðan ljósmyndarar hér á landi fóru að vinna með stílistum. Í útlöndum er heilt teymi á bak við hverja auglýsingu,“ segir Steinunn en hún sýndi glæsilegar greiðslur í jólablaði Glamour.

Eftir hrunið spöruðu margir við sig í klippingu og litun. Nú er öldin önnur og aftur er komið líf og fjör á hárgreiðslustofurnar. „Það eru breyttir tímar og karlmenn eru ekki síður en konur uppteknir af því að líta vel út,“ segir Steinunn. „Maður er miklu öruggari með sig ef útlitið er í lagi. Mér finnst ekkert fallegra en glansandi heilbrigt og fallegt hár.“

Steinunn segir að hún fylgist mjög vel með því sem er að gerast á heimsvísu í faginu. „Við erum sífellt að endurmennta okkur og læra eitthvað nýtt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×