Lífið

Listamaður blundaði í Sævari árum saman

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sævar Karl og fjölskylda tóku forskot á sæluna og héldu upp á sjötugsafmæli Sævars Karls á laugardaginn, í blíðskaparveðri í garðinum á heimili þeirra hjóna.
Sævar Karl og fjölskylda tóku forskot á sæluna og héldu upp á sjötugsafmæli Sævars Karls á laugardaginn, í blíðskaparveðri í garðinum á heimili þeirra hjóna. vísir/ernir
Sævar Karl Ólason, myndlistarmaður og fyrrverandi kaupmaður, fagnar sjötíu ára afmæli sínu í dag.

Þessi nýi tugur leggst alveg ljómandi vel í mig,“ segir Sævar Karl Ólason, myndlistarmaður og fyrrverandi kaupmaður, en hann fagnar sjötíu ára afmæli sínu í dag. Sævar Karl þekkja flestir, en hann rak fataverslun sína í Bankastræti í fjölmörg ár og er þekktur fagurkeri. Hann seldi verslunina fyrir sléttum tíu árum, í góðærinu, og starfar í dag sem myndlistarmaður. Raunar stendur yfir sýning á módelskyssum eftir hann þessa dagana, hjá Ófeigi gullsmiði á Skólavörðustíg 5.

„Þetta er afskaplega fallegt, lítið gallerí. Það hentar því vel sem ég er að sýna núna, sem er raunar nokkuð frábrugðið því sem ég er vanur að gera. Minn stíll er abstraktmálverkið á stórum skala,“ útskýrir Sævar, sem segir myndlistarmanninn hafa blundað í sér árum saman. Hann hóf að stunda listnám meðfram kaupmennskunni. „Ég stundaði námið svo vel að það fór að hægja á versluninni hjá mér,“ segir Sævar og hlær. „Ég sakna ekki verslunarinnar þó ég hugsi hlýlega til þeirra ára og minna kúnna.“

Sævar Karl og fjölskylda tóku forskot á sæluna og héldu upp á stórafmælið á laugardaginn, í blíðskaparveðri í garðinum á heimili þeirra hjóna til þriggja áratuga í miðbænum. „Við buðum vinum og fjölskyldu að koma og fagna með okkur. Synir okkar tveir, sem báðir búa í útlöndum, komu heim af þessu tilefni, þannig að ég er hinn lukkulegasti með þetta allt saman,“ segir Sævar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×