Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var í kvöld kjörinn íþróttamaður ársins 2017 af Samtökum íþróttafréttamanna. Ólafía lék í ár sitt fyrsta tímabil á LPGA mótaröðinni, sterkustu atvinnumannamótaröð í golfi.
„Þetta er búið að vera ótrúlega stíft ár. Ég fann það í lok ársins að ég hefði mátt taka mér aðeins meiri pásur, mig langaði bara að spila í öllu,“ sagði Ólafía Þórunn í viðtali við Kristjönu Arnarsdóttur og Einar Örn Jónsson í beinni útsendingu RÚV frá hófinu í Hörpu í kvöld.
„Þetta er ótrúlegt flakk, að fara frá Asíu til Evrópu og Ameríku. Það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður, á þessu stigi. Þetta venst en er erfitt.“
Aðspurð sagðist Ólafía vissulega hafa ruglast á því í hvaða landi hún væri stödd og ef einhver spyrði hana hvar hún hafi verið að spila í síðustu viku þá þyrfti hún að hugsa sig tvisvar um til þess að rifja það upp.
„Já,“ sagði Ólafía og uppskar hlátrasköll úr sal. „Ég veit ekkert hvar ég er, stundum.“
Ólafía er í fríi frá golfinu nú í desember og hefur ekki snert golfkylfu síðan hún lauk leik á Drottningarmótinu í Japan í byrjun mánaðar. Hún fer til Flórída eftir áramót og byrjar þá aftur á fullu.
„Það er sagt að það sé mjög gott að taka sér alveg frí og vera andlega frá golfinu. Svo fer ég til Flórída í janúar og þá byrja ég aftur með trompi,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, íþróttamaður ársins 2017.
Sport