Innlent

Stefnir í óefni hjá leikskólum borgarinnar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í dag að setja á laggirnar tvö teymi til að bregðast við manneklu í leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar.Leikskólastjóri segir stöðuna verulega slæma og að það verði að bregðast fljótt við svo að starfsfólk gefist ekki upp.

Að undanförnu hafa verið sagðar fréttir af mikilli manneklu í leikskólum borgarinnar. Eins og staðan er í dag er enn óráðið í 96 stöðugildi.

Þá er staðan einnig mjög slæm á frístundaheimilum borgarinnar en þar vantar 173 starfsmenn í tæplega 89 stöðugildi.

Á fundi sínum í dag samþykkti skóla- og frístundaráð að setja á laggirnar tvö teymi til að bregðast við manneklunni. Hlutverk þeirra verður að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðuna í ráðningarmálum og styrkja vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla- og frístundar.

Valborg Hlín Guðlaugsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Langholti í Laugardal, segir að staðan á leikskólum borgarinnar sé mjög slæm enda aðeins 23 leikskólar af 64 fullmannaðir. „Það vantar 100 stöður hjá borginni í dag í leikskólana og að ætla að reka þá á því er ekki hægt. Það bara segir sig sjálft. Deildir eru ekki opnaðar og þeir sem eru að hlaupa hraðar þeir gefast upp,” segir Valborg.

Eins og staðan er í dag stendur Valborg frammi fyrir miklum vanda, þrátt fyrir að vera með grunnmönnun á leikskólanum.

Opnunartími leikskólanna er svo langur. Börn geta fengið allt upp í níu og hálfan klukkutíma á dag í vistun en við erum bara í átta tíma vinnu. Þannig að við þurfum að manna þetta á þessum grunnstöðugildum sem við erum með og það reynist okkur mjög erfitt,“ segir Valborg og bætir við að laun séu lág á sama tíma og það er mikið álag á starfsmönnum.

Valborg segir að það sé ógerlegt fyrir hana að finna menntaðan leikskólakennara á leikskólann en eins staðan er í dag vantar 60 leikskólakennar í borginni.

„Leikskólakennarar eru ekki til. Ég hef nú stundum sagt svona í gríni að við séum eins og risaeðlurnar, við erum að deyja út. Það eru leikskólar sem eru jafnvel bara með leikskólastjóra, sem leikskólakennara. Eða leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra sem eru leikskólakennarar en aðrir eru ekki með leikskólakennaramenntun í húsinu. Við gerum ótrúlegar kröfur á það fólk að sinna menntun yngstu barnanna okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×