Handbolti

Var nálægt því að jafna markafjöldann frá því í fyrra í einum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Egidijus Mikalonis var óstöðvandi í gær.
Egidijus Mikalonis var óstöðvandi í gær. vísir/vilhelm
Egidijus Mikalonis átti stórleik þegar Víkingur náði í óvænt stig gegn Haukum, 31-31, í 9. umferð Olís-deildar karla í gær.

Egidijus skoraði 17 mörk úr 24 skotum sem gerir 70,8% skotnýtingu. Hann nýtti öll átta vítin sín og gaf auk þess þrjár stoðsendingar.

„Ég var heppinn með skotin mín,“ sagði Egidijus, hógværðin uppmáluð, í samtali við Vísi eftir leikinn í gær.

„Ég hélt bara áfram að skjóta og hélt áfram að skora. Þetta er ekkert flóknara en það.“

Egidijus kom til Víkings frá KR í sumar. Hann lék aðeins átta leiki með KR í 1. deildinni á síðasta tímabili og skoraði í þeim 19 mörk.

Egidijus vantaði því aðeins tvö mörk til að jafna markafjöldann frá því í fyrra í leiknum gegn Haukum í gær.

Egidijus, sem er uppalinn á Selfossi, er markahæsti leikmaður Víkings á tímabilinu með 50 mörk í níu leikjum. Aðeins sex leikmenn hafa skorað fleiri mörk en hann í vetur.

Víkingar sitja í ellefta og næstneðsta sæti Olís-deildarinnar með þrjú stig. Þeir bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í vetur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×