Lamborghini ætlar Urus stórt hlutverk hjá fyrirtækinu því gert er ráð fyrir því að framleiðsla Urus muni tvöfalda sölu Lamborghini bíla og í því augnamiði hefur fyrirtækið fjölgað starfsmönnum um 700 í Sant´Agata verksmiðju Lamborghini í Bologna. Líklega eru þessar söluáætlanir ekki ofurbjartsýnar því svo virðist sem mikill markaður sé fyrir rándýra ofurjeppa og þau bílafyrirtæki sem hafa komið fram með slíka bíla á síðustu misserum hefur gengið vel að selja þá.
Lamborghini Urus er byggður á sama MLB Evo undirvagni og Porsche Cayenne, en bæði Lamborghini og Porsche tilheyra stóru Volkswagen bílasamstæðunni. Reyndar heyrir Lamborghini beint undir Audi sem er einnig undir regnhlíf Volkswagen.
