Á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar bað Ragnhildur Steinunn, kynnir keppninnar, Daða Frey um að útbúa ábreiðu af sigurlaginu ef honum tækist ekki að sigra keppnina en hann hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir skemmtilegar ábreiður af hinum ýmsu lögum.
Daði Freyr lenti sem kunnugt er í öðru sæti á eftir Svölu og lagi hennar Paper sem verður framlag Íslands í Eurovision í Kænugarði síðar á árinu.
Hann hefur nú birt ábreiðu sína af Paper og er hún vægast sagt mögnuð, eins og heyra má og sjá hér fyrir neðan.