Á fundunum fá hönnuðurnir einstakt tæki til að kynna hugmyndir og verk sín fyrir framkvæmda- og framleiðslustjórum erlendu fyrirtækjanna, sem eru sex talsins í ár. Fjögur koma frá Danmörku, Kähler, Norr11, Normann Copenhagen og Menu, eitt frá Finnlandi, Lokal, og eitt frá Bandaríkjunum, WantedDesign.

Mikilvæg tengsl hafa orðið til á þessum viðburði. Meðal þeirrar íslensku hönnunar sem hefur verið keypt af erlendum seljendum og framleiðendum í kjölfar DesignMatch má nefna Graphic Posters eftir Sigga Odds fyrir Paper Collective, Dagatal eftir Snæfríði Þorsteinsdóttur og Hildigunni Gunnarsdóttur fyrir Wrong for Hay, hálsmen frá Twin Within fyrir Monoqi og Shorebird eftir Sigurjón Pálsson fyrir Normann Copenhagen.