Rússneska tenniskonan Maria Sharapova mun ekki fá sæti á Opna franska meistaramótinu sem hún hefur unnið í tvígang.
Hin þrítuga Sharapova er nýkomin úr 15 mánaða keppnisbanni vegna ólöglegrar lyfjanotkunar. Hún hefur því hrunið niður heimslistann og er ekki nógu ofarlega til þess að komast inn á mótið.
Það eru aftur á móti alltaf gefin út nokkur „wildcard“ sæti á risamótunum og var fastlega búist við því að hún fengi eitt slíkt. Skipuleggjendur höfðu engan áhuga á því.
„Það er hægt að gefa aukasæti til fólks sem er að koma til baka eftir meiðsli en ekki til þeirra sem eru að koma til baka eftir lyfjahneyksli,“ sagði í yfirlýsingu frá mótshöldurum.
Mótið hefst þann 28. maí næstkomandi.
Sharapova fær ekki að taka þátt á Opna franska
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
