Viðskipti innlent

Baðstaðirnir þrír rukkuðu tíu milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Jarðböðin við Mývatn voru opnuð í júní 2004.
Jarðböðin við Mývatn voru opnuð í júní 2004. Vísir/Auðunn
Heildarvelta Jarðbaðanna við Mývatn í fyrra var 725 milljónir króna og greiddu gestir þá alls 581 milljón í aðgangseyri. Veltan jókst um 33 prósent milli ára en heildartekjur þriggja stóru einkareknu baðstaðanna hér á landi námu alls 10,2 milljörðum í fyrra.

Jarðböðin við Mývatn voru rekin með 303 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 196 milljónir árið 2015. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi baðstaðarins skilaði veitingasala 113 milljónum og jókst um 24 milljónir milli ára. Um metár var að ræða enda gestir baðstaðarins aldrei verið fleiri eða rúmlega 200 þúsund talsins. Jarðböðin voru um síðustu áramót metin á 3,2 milljarða króna, eins og Fréttablaðið greindi frá í maí síðastliðnum, og hafði virði þeirra þá aukist um 2,3 milljarða á tveimur árum.

Rekstrartekjur Bláa lónsins í Svartsengi jukust úr 54,3 milljónum evra árið 2015 í 77,2 milljónir í fyrra. Heildarveltan í fyrra í krónum talið, miðað við gengi gjaldmiðilsins í lok 2016, nam því 9,1 milljarði króna. Tekjur af aðgangseyri jukust um 33 prósent milli ára og voru 5,2 milljarðar króna. Sala á veitingum skilaði 2,1 milljarði en Bláa lónið hagnaðist um jafnvirði rétt tæpra 2,8 milljarða króna í fyrra.

Laugarvatn Fontana var opnað sumarið 2011 og er því yngsti baðstaðurinn af þeim þremur stærstu einkareknu sem finna má hér á landi. Hagnaður fyrirtækisins meira en þrefaldaðist í fyrra eins og kom fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í byrjun júní. Baðstaðurinn var þá rekinn með 90,8 milljóna hagnaði og námu tekjurnar 372 milljónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×