Að hve miklu leyti heimildin verður nýtt fer eftir afkomu Kviku á öðrum ársfjórðungi og eins endanlegu samþykki hluthafa bankans og Öldu sjóða en í byrjun júní var undirritaður samningur um kaup Virðingar á Öldu. Hluthafar Kviku hafa forgangsrétt til áskriftar að hinum nýju hlutum í bankanum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína í félaginu. Ekki er búist við því að áskriftarloforð verði innheimt fyrr en í september eða október á þessu ári. Samkvæmt kauptilboði Kviku, sem stjórn félagsins lagði fram 20. júní, greiðir bankinn 2.560 milljónir fyrir allt hlutafé Virðingar og er greitt með reiðufé.
Afar ósennilegt er talið að hluthafar Kviku muni að fullu nýta sér forgangsrétt sinn þegar hlutafé bankans verður aukið næstkomandi haust. Hluthöfum Virðingar mun þá gefast færi á því að taka þátt í hlutafjárhækkuninni og eignast þannig hlut í sameinuðu félagi. Þeir hluthafar sem eru meðal annars sagðir áhugasamir um að endurfjárfesta söluandvirði sitt til kaupa á hlut í Kviku banka eru meðal annarra Kristín Pétursdóttur, stjórnarformaður Virðingar, og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, sem einnig situr í stjórn félagsins, en félög þeirra eru í hópi fimm stærstu hluthafa verðbréfafyrirtækisins.

Langsamlega stærsti hluthafi Kviku er tryggingafélagið VÍS með tæplega 25 prósenta hlut. Aðrir hluthafar eru meðal annars félagið RES II, sem er í eigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis og Gunnars Henriks B. Gunnarssonar, með 9,92 prósent og þá á Lífeyrissjóður verslunarmanna ríflega 9,5 prósenta hlut. Greint var frá því í Markaðnum þann 28. júní síðastliðinn að RES II hefði aukið við hlut sinn um tæplega þrjú prósent með því að kaupa stærstan hluta bréfa TM í Kviku.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.