Viðskipti innlent

Starfsmenn Kviku banka fá samtals um 550 milljónir króna í arð

Hörður Ægisson skrifar
Hagnaður Kviku 2016 nam um 1.930 milljónum.
Hagnaður Kviku 2016 nam um 1.930 milljónum. VÍSIR/GVA
Hópur starfsmanna Kviku fjárfestingabanka fær samtals um 550 milljónir í arð vegna góðrar afkomu á síðasta ári en hagnaður bankans nam þá um 1.930 milljónum króna eftir skatt. Þetta var samþykkt á aðalfundi Kviku þann 15. mars, samkvæmt upplýsingum Markaðarins, þegar ákveðið var að greiða arð til hluthafa í B-flokki í samræmi við samþykktir félagsins.

Þær kveða á um að eigendur ­B-hluta í bankanum eigi rétt til arðs er nemur 35 prósentum árlegs hagnaðar fyrir tekjuskatt, að því marki sem hagnaður er umfram 6 prósent arðsemi eiginfjár. Bankinn skilaði sem fyrr segir afar góðri afkomu í fyrra og var arðsemi eigin fjár 34,7 prósent. Eigendur B-hluta eru ýmsir starfsmenn Kviku en ekki liggja fyrir opinberar upplýsingar um fjölda þeirra eða hversu stóran hlut hver þeirra á í bankanum.

Eigið fé Kviku var um 7.350 milljónir í árslok 2016 og jókst um meira en 1.150 milljónir á milli ára þrátt fyrir lækkun hlutafjár upp á þúsund milljónir á fyrri árshelmingi sem voru greiddar út til hluthafa. Stærstu eigendur Kviku í dag eru VÍS og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Eiginfjárhlutfall bankans er 20,6 prósent sem er vel umfram kröfur eftirlitsaðila.

Á aðalfundi bankans síðastliðinn miðvikudag, eins og upplýst var um í Markaðnum áður en fundurinn fór fram, tóku tveir nýir stjórnarmenn sæti í stjórn bankans. Þeir eru Guðmundur Örn Þórðarson, fjárfestir og hluthafi í tryggingafélaginu VÍS, og Hrönn Sveinsdóttir, fjármálastjóri Vodafone. Þau Anna Skúladóttir, móðir Skúla Mogensen, sem seldi allan hlut sinn í Kviku fyrir skemmstu, og Finnur Reyr Stefánsson, fjárfestir og fyrrverandi varaformaður stjórnar Kviku, létu hins vegar af störfum. 

Fréttin birtisti fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×