Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fengið afhent þau gögn sem Ólafur Ólafsson fjárfestir hyggst kynna nefndinni á morgun. Nefndarmenn fengu gögnin í hendurnar síðdegis en þeir fóru fram á að fá að kynna sér þau.
Þetta staðfestir Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður nefndarinnar, í samtali við fréttastofu. Jón Steindór stýrir umfjöllun nefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans, en Ólafur gegnir aðalhlutverki í skýrslunni.
Jón vill ekki upplýsa um eðli gagnanna né umfang þeirra. Það komi í ljós á fundinum á morgun. Fyrri hluti fundarins verður opinn fjölmiðlum og hefst klukkan 15. Rannsóknarnefndin mun í framhaldinu sitja fyrir svörum en sá hluti fundarins verður lokaður.
Ólafur fór sjálfur fram á að koma fyrir nefndina og útskýra mál sitt en hann neitar því staðfastlega að hafa staðið í blekkingum við íslenska ríkið við kaupin á bankanum árið 2003.
Ólafur búinn að afhenda gögnin

Tengdar fréttir

Ólafur Ólafsson óskaði formlega eftir fundi á föstudaginn
Ólafur Ólafsson, athafnamaður og stærsti eigandi Samskipa, hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis formlegt erindi og óskað eftir að fá að mæta á fund hennar.