Veiði

Peter Ross er öflug í sjóbleikjuna

Karl Lúðvíksson skrifar
Peter Ross er veiðin fluga.
Peter Ross er veiðin fluga.
Eitt af vorverkunum er að fara í gegnum fluguboxin og henda flugum sem eru ónýtar og sjá hvað þarf að hnýta fyrir komandi sumar.

Í þessum yfirferðum sér maður oft hvaða flugur eru mest notaðar í safninu og hvaða flugur stundum gleymist að nota.  Ein af þessum flugum sem er vel þekkt hjá eldri veiðimönnum en ungir veiðimenn virðast ekki nota hana mikið hvað þá þekkja fluguna í sjón.  Eitt er víst að þeir sem hafa átt góð augnablik með Peter Ross á línunni eiga alltaf nokkur einötök af henni í boxinu.

Það er eitthvað við hana sem bara virkar.  Hvort sem það er fallegur fínröndótti vængurinn, silfurbúkurinn með rauða frampartinum eða þetta allt saman þá gefur flugan vel og sérstaklega virðist sjóbleikja vera hrifin af henni.  Vatnableikja tekur hana að vísu vel líka en ef ég ætti að velja eina flugu til að nota í sjóbleikju alla tíð þá væri Peter Ross málið og ætli Bleik og Blá sé ekki þar næst á listanum.  Það er lítið mál að hnýta þessa flugu og hún er til bæði sem fullklædd fluga og púpa og efnismagnið í þeim báðum getur verið mismunandi.

Mér finnst hún persónulega best sem fluga á sjóbleikju, heldur léttklædd og hnýtt á low water tvíkrækju.  Sem púpa er hún best á bogna króka og eiginlega alveg skylda að hafa á henni kúlu.  Ef þú þekkir þessa flugu þarf ekkert að segja þér hvað hún getur verið veiðin á dögum þar sem sólin glennir sig af og til í gegnum skýin svo það glampi aðeins á búkinn á flugunni en ef þú hefur aldrei notað hana og átt hana ekki í boxinu skaltu setjast niður í kvöld og hnýta.






×