Óráð Hörður Ægisson skrifar 28. júlí 2017 07:00 Fyrr á árinu skipaði forsætisráðherra verkefnisstjórn sem á að koma með tillögur um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands. Óhætt er að segja að um sé að ræða eitt stærsta verkefni stjórnvalda. Öllum má enda vera ljóst að núverandi stefna er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Endurskoða þarf peningastefnuna með hliðsjón af þeirri byltingu sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins, ekki hvað síst vegna tilkomu nýrrar og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Verkefnisstjórnin er hins vegar ekki í öfundsverðri stöðu. Á meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar er djúpstæður ágreiningur um hvaða leiðir eigi að fara í þeim efnum – á meðan sumir telja réttast að bæta umgjörðina um krónuna halda aðrir að til séu patentlausnir til að ná fram auknum stöðugleika í efnahagslífinu og lægri vöxtum. Fjármálaráðherra skipar seinni hópinn. Í grein í Fréttablaðinu í liðinni viku hafnaði hann krónunni sem gjaldmiðli og talaði fyrir fastgengisstefnu í formi myntráðs, sem áfanga í að taka upp evru í framtíðinni. Þótt sú skoðun ráðherrans sé vel þekkt eru slíkar yfirlýsingar – frá fjármálaráðherra landsins – augljóslega ekki til þess fallnar að auðvelda vinnu verkefnisstjórnarinnar. Eigi að takast að framfylgja fastgengisstefnu í gegnum myntráð er lykilatriði að það séu náin tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Því er alls ekki fyrir að fara í tilfelli Íslands og evrópska myntbandalagsins. Hagsveiflan hér á landi hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum evrusvæðisins. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, benti á þessi augljósu sannindi fyrir skemmstu og sagði hagsveiflu evrusvæðisins undanfarin ár hafa verið gjörólíka þeirri íslensku. Myntráðsleið, með tengingu krónu við evru, hefði falið í sér sameiginlega peningastefnu sem hefði alls ekki hentað hér á landi. Á sama tíma og mörg evruríki hafa þurft að glíma við mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt, sem hefur þýtt að Evrópski seðlabankinn hefur haldið stýrivöxtum við núll prósent, þá er Ísland að upplifa fordæmalausan efnahagsuppgang sem endurspeglast meðal annars í gríðarlegri hækkun á raungengi krónunnar. Þótt mikil styrking krónunnar sé farin að valda sumum útflutningsgreinum tímabundnum erfiðleikum þá hefur gengishækkunin skipt sköpum í að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum samhliða miklum vexti ferðaþjónustunnar og stuðlað að minni verðbólgu og lægri vöxtum. Krónan hefur unnið sitt verk. Það er ekki hlutverk gjaldmiðils að þjóðnýta misfjárfestingu tiltekinna atvinnugreina sem ættu, í stað þess að kvarta undan háu gengi krónunnar, fremur að leita leiða til hagræðingar og samþjöppunar við núverandi aðstæður. Fastgengisstefna í gegnum myntráð myndi útheimta margfalt stærri gjaldeyrisforða en þann sem Seðlabankinn hefur byggt upp á síðustu árum. Að öðrum kosti myndi slíka stefnu skorta trúverðugleika og framkalla áhlaup um leið og alþjóðlegir spákaupmenn gerðu sér grein fyrir því að fastgengið væri ekki í samræmi við undirliggjandi efnahagsþróun og Seðlabankinn hefði hvorki getu né vilja til að verja það. Verkefni stjórnvalda er því ekki að leggja upp í myntráðsvegferð þar sem lokatakmarkið er upptaka evru, sem nýtur hvorki pólitísks né almenns stuðnings og yrði aðeins til þess fallin að leiða til óþarfa átaka í samfélaginu, heldur að einblína á raunhæfar aðgerðir til að bæta hagstjórnina og umgjörð peningastefnunnar. Þar eru ekki í boði neinar töfralausnir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Fyrr á árinu skipaði forsætisráðherra verkefnisstjórn sem á að koma með tillögur um endurmat á forsendum peninga- og gjaldmiðlastefnu Íslands. Óhætt er að segja að um sé að ræða eitt stærsta verkefni stjórnvalda. Öllum má enda vera ljóst að núverandi stefna er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Endurskoða þarf peningastefnuna með hliðsjón af þeirri byltingu sem hefur orðið á grunngerð hagkerfisins, ekki hvað síst vegna tilkomu nýrrar og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Verkefnisstjórnin er hins vegar ekki í öfundsverðri stöðu. Á meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar er djúpstæður ágreiningur um hvaða leiðir eigi að fara í þeim efnum – á meðan sumir telja réttast að bæta umgjörðina um krónuna halda aðrir að til séu patentlausnir til að ná fram auknum stöðugleika í efnahagslífinu og lægri vöxtum. Fjármálaráðherra skipar seinni hópinn. Í grein í Fréttablaðinu í liðinni viku hafnaði hann krónunni sem gjaldmiðli og talaði fyrir fastgengisstefnu í formi myntráðs, sem áfanga í að taka upp evru í framtíðinni. Þótt sú skoðun ráðherrans sé vel þekkt eru slíkar yfirlýsingar – frá fjármálaráðherra landsins – augljóslega ekki til þess fallnar að auðvelda vinnu verkefnisstjórnarinnar. Eigi að takast að framfylgja fastgengisstefnu í gegnum myntráð er lykilatriði að það séu náin tengsl við hagsveiflu þess myntsvæðis sem gengið er fest við. Því er alls ekki fyrir að fara í tilfelli Íslands og evrópska myntbandalagsins. Hagsveiflan hér á landi hefur lítil sem engin tengsl við hagsveifluna í kjarnaríkjum evrusvæðisins. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði, benti á þessi augljósu sannindi fyrir skemmstu og sagði hagsveiflu evrusvæðisins undanfarin ár hafa verið gjörólíka þeirri íslensku. Myntráðsleið, með tengingu krónu við evru, hefði falið í sér sameiginlega peningastefnu sem hefði alls ekki hentað hér á landi. Á sama tíma og mörg evruríki hafa þurft að glíma við mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt, sem hefur þýtt að Evrópski seðlabankinn hefur haldið stýrivöxtum við núll prósent, þá er Ísland að upplifa fordæmalausan efnahagsuppgang sem endurspeglast meðal annars í gríðarlegri hækkun á raungengi krónunnar. Þótt mikil styrking krónunnar sé farin að valda sumum útflutningsgreinum tímabundnum erfiðleikum þá hefur gengishækkunin skipt sköpum í að viðhalda jafnvægi í þjóðarbúskapnum samhliða miklum vexti ferðaþjónustunnar og stuðlað að minni verðbólgu og lægri vöxtum. Krónan hefur unnið sitt verk. Það er ekki hlutverk gjaldmiðils að þjóðnýta misfjárfestingu tiltekinna atvinnugreina sem ættu, í stað þess að kvarta undan háu gengi krónunnar, fremur að leita leiða til hagræðingar og samþjöppunar við núverandi aðstæður. Fastgengisstefna í gegnum myntráð myndi útheimta margfalt stærri gjaldeyrisforða en þann sem Seðlabankinn hefur byggt upp á síðustu árum. Að öðrum kosti myndi slíka stefnu skorta trúverðugleika og framkalla áhlaup um leið og alþjóðlegir spákaupmenn gerðu sér grein fyrir því að fastgengið væri ekki í samræmi við undirliggjandi efnahagsþróun og Seðlabankinn hefði hvorki getu né vilja til að verja það. Verkefni stjórnvalda er því ekki að leggja upp í myntráðsvegferð þar sem lokatakmarkið er upptaka evru, sem nýtur hvorki pólitísks né almenns stuðnings og yrði aðeins til þess fallin að leiða til óþarfa átaka í samfélaginu, heldur að einblína á raunhæfar aðgerðir til að bæta hagstjórnina og umgjörð peningastefnunnar. Þar eru ekki í boði neinar töfralausnir.