ÁTVR-laus umræða Kristín Þorsteinsdóttir skrifar 11. febrúar 2017 07:00 Áfengisfrumvarpið liggur enn einu sinni fyrir á Alþingi, og þykir nú líklegra en áður til að hljóta brautargengi. Samkvæmt frumvarpinu verður það í höndum sveitarstjórna að veita einkaaðilum leyfi til smásölu. Salan skal fara fram í afmörkuðum rýmum og einungis frá 9 að morgni til 24 að kvöldi. Áfengisauglýsingar verða sömuleiðis leyfðar. Sem fyrr stendur styr um frumvarpið, og virðast þeir sem mótfallnir eru í grófum dráttum skiptast í tvo hópa; þá sem óttast að aukið aðgengi muni hafa neikvæð áhrif á heilsu og hátterni landsmanna annars vegar, og hins vegar þá sem telja að úrval, verðlag og þjónusta komi til með að breytast til hins verra við brotthvarf vínverslana ÁTVR. Þessir hópar virðast sammála í andstöðu sinni, en ósammála innbyrðis um hvaða áhrif frjáls sala áfengis komi til með að hafa, enda ætti hærra verðlag og minna úrval samkvæmt öllum eðlilegum ályktunum að leiða til minnkandi neyslu. Eða hvað? Spurningin er því hvort fyrrnefndi hópurinn ætti ekki fremur að beita sér fyrir því að núverandi fyrirkomulagi verði breytt og aðgangur að áfengi takmarkaður enn frekar, jafnvel að sala áfengis verði bönnuð með öllu? Síðarnefndi hópurinn gæti þá barist fyrir því að ríkið taki yfir aðra vinsæla neysluvöru, eins og sölu á fatnaði og jafnvel matvöru líka, en samkvæmt þeirra hugmyndum myndi slíkt leiða til stóraukins úrvals, bættrar þjónustu og lægra verðs. Raunar er það svo að hundalógík og hræsni er að finna nánast hvert sem litið er við núverandi fyrirkomulag. Verslanir ÁTVR sækja umboð sitt og hlutverk í lög, og ber að búa til „umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu“. Verslanir ÁTVR eru 53 og hefur fjölgað um tæplega fjörutíu prósent frá aldamótum. Varla telst slík fjölgun umfram mannfjöldaþróun vænleg leið til að takmarka aðgang að skaðvaldinum? Ótalið er framboð af áfengi á veitingahúsum og börum. Aðgangur að áfengi er því sambærilegur við það sem gerist annars staðar, þó að hér starfi sérstök ríkiseinokunarverslun. ÁTVR er líka bannað að auglýsa, en gerir það engu að síður undir rós með yfirskini forvarna. Erlendir áfengisframleiðendur auglýsa sömuleiðis óáreittir, auk þess sem netið gerir það að verkum að áfengisauglýsingar, beinar og óbeinar, eru fyrir allra augum alla daga, þótt þær séu bannaðar á blaði. Auglýsingabannið er því frauð eitt og snertir einungis innlenda framleiðendur og heildsala, og síðan náttúrulega innlendu fjölmiðlana sjálfa sem verða af mikilvægum tekjum. Ekki má þó loka augunum fyrir lýðheilsusjónarmiðum. Engum blöðum er um það að fletta að áfengi er skaðvaldur í lífi margra. Sannleikurinn er hins vegar sá að ÁTVR gegnir engu raunverulegu hlutverki í því, eða við að bæta áfengismenningu landsmanna. Við ættum að geta tekið umræðu um hvernig best er að haga umgjörð um áfengi í okkar samfélagi án þess að ÁTVR sé þar upphaf alls og endir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kristín Þorsteinsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Áfengisfrumvarpið liggur enn einu sinni fyrir á Alþingi, og þykir nú líklegra en áður til að hljóta brautargengi. Samkvæmt frumvarpinu verður það í höndum sveitarstjórna að veita einkaaðilum leyfi til smásölu. Salan skal fara fram í afmörkuðum rýmum og einungis frá 9 að morgni til 24 að kvöldi. Áfengisauglýsingar verða sömuleiðis leyfðar. Sem fyrr stendur styr um frumvarpið, og virðast þeir sem mótfallnir eru í grófum dráttum skiptast í tvo hópa; þá sem óttast að aukið aðgengi muni hafa neikvæð áhrif á heilsu og hátterni landsmanna annars vegar, og hins vegar þá sem telja að úrval, verðlag og þjónusta komi til með að breytast til hins verra við brotthvarf vínverslana ÁTVR. Þessir hópar virðast sammála í andstöðu sinni, en ósammála innbyrðis um hvaða áhrif frjáls sala áfengis komi til með að hafa, enda ætti hærra verðlag og minna úrval samkvæmt öllum eðlilegum ályktunum að leiða til minnkandi neyslu. Eða hvað? Spurningin er því hvort fyrrnefndi hópurinn ætti ekki fremur að beita sér fyrir því að núverandi fyrirkomulagi verði breytt og aðgangur að áfengi takmarkaður enn frekar, jafnvel að sala áfengis verði bönnuð með öllu? Síðarnefndi hópurinn gæti þá barist fyrir því að ríkið taki yfir aðra vinsæla neysluvöru, eins og sölu á fatnaði og jafnvel matvöru líka, en samkvæmt þeirra hugmyndum myndi slíkt leiða til stóraukins úrvals, bættrar þjónustu og lægra verðs. Raunar er það svo að hundalógík og hræsni er að finna nánast hvert sem litið er við núverandi fyrirkomulag. Verslanir ÁTVR sækja umboð sitt og hlutverk í lög, og ber að búa til „umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu“. Verslanir ÁTVR eru 53 og hefur fjölgað um tæplega fjörutíu prósent frá aldamótum. Varla telst slík fjölgun umfram mannfjöldaþróun vænleg leið til að takmarka aðgang að skaðvaldinum? Ótalið er framboð af áfengi á veitingahúsum og börum. Aðgangur að áfengi er því sambærilegur við það sem gerist annars staðar, þó að hér starfi sérstök ríkiseinokunarverslun. ÁTVR er líka bannað að auglýsa, en gerir það engu að síður undir rós með yfirskini forvarna. Erlendir áfengisframleiðendur auglýsa sömuleiðis óáreittir, auk þess sem netið gerir það að verkum að áfengisauglýsingar, beinar og óbeinar, eru fyrir allra augum alla daga, þótt þær séu bannaðar á blaði. Auglýsingabannið er því frauð eitt og snertir einungis innlenda framleiðendur og heildsala, og síðan náttúrulega innlendu fjölmiðlana sjálfa sem verða af mikilvægum tekjum. Ekki má þó loka augunum fyrir lýðheilsusjónarmiðum. Engum blöðum er um það að fletta að áfengi er skaðvaldur í lífi margra. Sannleikurinn er hins vegar sá að ÁTVR gegnir engu raunverulegu hlutverki í því, eða við að bæta áfengismenningu landsmanna. Við ættum að geta tekið umræðu um hvernig best er að haga umgjörð um áfengi í okkar samfélagi án þess að ÁTVR sé þar upphaf alls og endir.