Lífið

Mætti málaður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jói K og Ásgeir Erlends eru umsjónarmenn þáttarins.
Jói K og Ásgeir Erlends eru umsjónarmenn þáttarins.
Í nýjum heimildaþáttum á Stöð 2 fá áhorfendur einstakt tækifæri til að skyggnast inn í líf þeirra sem eru alltaf til taks þegar á reynir. Áhafnir Landhelgisgæslunnar hafa í áraraðir unnið frækileg björgunarafrek og hefur Ásgeir Erlendsson fylgt þeim eftir og kynnt sér ötult starf þeirra undanfarna mánuði.

„Ég er svo heppinn að hafa Jóa K., fréttamann á Stöð 2, með mér í þessu. Hann hefur verið á tökuvélinni og tilbúinn að stökkva í útkall með þyrlusveitinni í öllum veðrum hvenær sem er sólarhringsins,“ segir Ásgeir, og bætir því við að það sé fátt sem Jói K. geti ekki gert. Hann segir að við gerð svona þátta þurfi hlutirnir að gerast mjög hratt.

„Við reyndum að hafa fyrirkomulagið þannig að á meðan Jói K. kom sér í gallann kveikti ég á GoPro-vélunum sem við vorum búnir að koma fyrir í þyrlunum. Í eitt skipti þegar verið var að taka upp haustauglýsingu Stöðvar 2, hringir Jói K. og segir mér að það sé útkall úti á sjó og ég verði að koma. Ég bruna því niður á flugvöll og þar er búið að ræsa þyrluna en þar sem ekki voru allir úr áhöfninni komnir, fékk ég leyfi til að fara um borð. Þar voru tveir sem við höfðum ekki farið með áður og ég stekk um borð í blazer-jakka og málaður í þokkabót.“

Landhelgisgæslan hefst í kvöld klukkan 19:55.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.