Lífið

Fimm hlutir sem við getum ekki gleymt úr Englandsleiknum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þáskeggjaði fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson ærðist manna mest eftir að ,,Skomina, þarna, dómarinn þinn'' flautaði leikinn af í Nice.
Þáskeggjaði fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson ærðist manna mest eftir að ,,Skomina, þarna, dómarinn þinn'' flautaði leikinn af í Nice. Vísir/getty
Þann 27. júní 2016, fyrir nákvæmlega einu ári síðan, vann íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu líklega fræknasta sigur í hópíþróttasögu þjóðarinnar.

Knattspyrnustórveldið England mátti sín þá lítils gegn litla Íslandi í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í Nice í Frakklandi.

Lokatölur 2-1 fyrir Ísland, úrslit sem riðu eins og höggbylgja yfir heimsbyggðina. Strákarnir urðu stjórstjörnu á einni nóttu, Englendingar þurftu að finna sér nýjan landsliðsþjálfara og Íslendingar liðu um í sæluvímu í heila viku.

Hér að neðan höfum við tekið saman 5 atriði um leikinn sem við gleymum aldrei.

1. Leikurinn sjálfur

Byrjum á byrjuninni. Leikurinn er sem brenndur í heilabörk þjóðarinnar. Vítaspyrnudómurinn í upphafi, mark Ragnars Sigurðssonar 2 mínútum síðar og skot Kolbeins Sigþórssonar sem rann undir markmann Englendinga þegar rétt um 18 mínútur voru liðnar af leiknum.

Þrátt fyrir að vera einungis 37% með boltann í leiknum og Englendingar hafi átt 18 marktilraunir var sigurinn nær aldrei í hættu. Hér að neðan er stiklað á stóru í leiknum.

Fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, Steve McClaren var að fylgjast með leiknum í útsendingu Sky News á meðan staðan var enn 1-1. McClaren fór að gera lítið úr íslenska liðinu sem væri með takmarkaða getu í sókninni.

Hann kallaði Kolbeinn Sigþórsson „Sigurðsson“ áður en hann var leiðréttur og svo gerðist það. Kolli skoraði og McClaren varð orðlaus.

2. Tæklingin hans Ragga

Það mætti minnast á mörg atriði úr leiknum sem segja má að hafi staðið upp úr; t.a.m. mörk Íslands, þegar landsliðsfyrirliðinn komst einn á móti marki í lok leiks eða bakfallspyrnan hans Ragnars. Það var þó eitt augnablik sem fékk íslensku þjóðina til að standa á öndinni. Tæklingin hans Ragga.

Rúmlega 70 mínútur voru komnar á klukkuna þegar einn heitasti framherji ensku úrvaldsdeildarinnar, Jamie Vardy, komst í upplagt marktækifæri. Það eina sem stóð í vegi hans var Ragnar Sigurðsson. Raggi gerði sér lítið fyrir og hljóp hinn skruggufljóta Vardy uppi og henti sér fyrir hann. Hefði Raggi misreiknaði sig hefði það annað hvort endaði með jöfnunarmarki eða honum hefði umsvifalaust verið vísað út af. Það sem hann bauð hins vegar upp á var tækling Evrópumótsins.

Straujárn voru nefnd í höfuðið á Ragnari eftir þessa tæklingu.Vísir/Getty
3. Lokaflautið

Englendingar höfðu legið á íslensku vörninni þegar kom að síðustu spyrnu leiksins. Harry Kane, sem var hörmulegur í leiknum, fékk tækifæri til að senda boltann inn í vítateig Íslands þegar rúmlega 3 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Síðasti sénsinn fyrir stórveldið til að jafna leikinn og knýja fram framlengingu.

Markmaður Englands var kominn inn í teiginn - öllu tjaldað til. Hornspyrna Kane rataði beint á kollinn á Deli Alli sem skallaði boltann í jörðina og lengst framhjá markinu. Í þann mund flautaði dómarinn, Damir Skomina, leikinn af og Íslendingar gengu af göflunum. Myndband sem Hannes Halldórsson birti eftir leikinn fangaði vel brjálæðið sem rann um æðar Íslendinga eftir leikinn.

4. Viðbrögðin

Eftirköstin voru ekki lengi að gera vart við sig. Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englendinga, sagði af sér strax eftir leikinn. Hann hefur líklega áttað sig á því hvurslags útreið ensku dagblöðin buðu upp á á forsíðum sínum daginn eftir. „Cod help us,“ sagði Daily Star.

„Mesta niðurlæging Englands,“ sagði Telegraph og vísanir í Brexit voru ekki langt undan. Einungis fjórum dögum áður höfðu Bretar í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að stefna að úrsagnarferli úr Evrópusambandinu - niðurstaða sem kom mörgum á óvart. Þó ekki jafn mörgum og niðurstaðan sem íslenska landsliðið bauð upp á einungis hálfri viku síðar. Fleiri forsíður má nálgast hér.

Rætt var um úrslitin í öllum helstu spjallþáttum heimsins. Stephen Colbert, vinsælasti kvöldþáttastjórnandinn vestanhafs, komst þannig ekki hjá því að minnast á mestu niðurlægingu Englendinga „síðan á föstudaginn.“

Þá þótti honum mikið til lýsingar Guðmundar Benediktssonar koma sem hann sagði að hljómaði eins og hann hefði fest höndina í sorpkvörn.
5. Stuðningsmennirnir

Það var þó ekki einungis leikurinn sjálfur sem stal fyrirsögnum um heim allan. Íslenska þjóðin vann hug og hjörtu knattspyrnuáhugamanna um víða veröld fyrir einarðan stuðning á Evrópumótinu og tókst henni að eigna sér hið skoska Víkingaklapp sem ómaði um alla álfuna.

Myndskeið af fögnuði Íslendinga í Frakkland og Arnarhóli fóru sem eldur í sinu um netheima og þótti erlendum miðlum sérstaklega gaman að minnast á að um 10% þjóðarinnar höfðu lagt leið sína á Evrópumótið.

Það var því ekki nema von að heimasíða WOW Air hafi hrunið eftir leikinn þegar hin 90% þjóðarinnar vildu allt í einu öll komast til Frakklands. Enginn vildi missa af næstu viðureign í vegferð Íslendinga á Evrópumótinu. Næst yrðu það gestgjafarnir á sjálfum þjóðarleikvanginum í París. Sá leikur fór fram en það er öllum sama hvernig hann fór.

Strákarnir voru hylltir í brakandí blíðu á Austurvelli við heimkomuna. Vísir var að sjálfsögðu í beinni. Útsendinguna má sjá hér að neðan.

Fleiri áhugaverða fleti á þessum sögulega leik má sjá í tengdum fréttum hér að neðan.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.