Viðskipti innlent

Lars segir óþarfi að óttast nýju stjórnina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lars Christensen hefur meðal annars skrifað pistla í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, um árabil.
Lars Christensen hefur meðal annars skrifað pistla í Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, um árabil. VÍSIR/GVA
Íslendingar ættu ekki að þurfa að óttast þá ríkisstjórn sem nú er í smíðum ef marka má fjármálaráðgjafann og fyrrverandi aðalhagfræðing Danske Bank, Lars Christensen. „Ísland verður ekki gjörbreytt frá því sem það er í dag.“

Ætla má af umfjöllun Bloomberg um stjórnarmyndunarviðræðurnar sem nú standa yfir að Íslendingar megi eiga von á umtalsverðum umskiptum í stjórnmálunum. „Ungur vinstrisinni mun þurfa að reiða sig á kerfisandstöðuflokkinn Pírata til að halda tæpum meirihluta,“ er inntakið og Samfylkingin og Framsókn því næst kynnt til sögunnar. Eitt stærsta verkefni nýrrar stjórnar verði ekki síst að koma böndum á „ofhitnandi ferðamannaiðnað“ sem drífur áfram hagvöxt - en líka upp húsnæðisverðið.

„Fjögurra flokka viðræður verða flóknar og óvíst er að þær takist,“ en engu að síður sé „veik samsteypu- eða minnihlutastjórn vel möguleg,“ að mati Fitch Ratings, sem vísað er til á Bloomberg.

Danski sjáandinn

Þar er jafnframt rætt við Lars, sem kynntur er til sögunnar sem einn fyrstu greinandanna sem sá fyrir efnahagshrunið á Íslandi árið 2008. Lars segir að hin nýja stjórn þurfi ekki síður að líta til kjaramálanna en kröfur um síhækkandi laun muni hafa áhrif á verðbólgu og peningastefnu landsins.

Engu að síður ættu fjárfestar að vera nokkuð óhræddir. „Við höfum séð á öðrum Norðurlöndum að mið-vinstristjórnir eiga það til að standa vörð um nokkuð frjálsan markaðsbúskap,“ að sögn þess danska.

Umfjöllunina má nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×