Bakþankar

Ennþá svangar

Hildur Björnsdóttir skrifar
Ég upplifði það fyrst fjórtán ára. Að minnsta kosti áþreifanlega. Ég sat við matarborð og bað um ábót. Beiðninni var góðfúslega hafnað. Lítið var eftir af mat og annar aðili svangur. Sá var 10 ára drengur. Hann hafði forgang – því strákar þurfa meira.

Atvikið þótti mér óréttlátt. Ég gat ómögulega skilið samhengið. Hvers vegna þurfti 10 ára drengur meira en 14 ára stelpa? Ég var ennþá svöng.

Nýlega sat ég við annað matarborð. Þar sat önnur kona og tveir menn. Við snæddum flatbökur. Samanlagt 24 sneiðar. Þegar við konurnar höfðum saman klárað fjórar, höfðu karlarnir sporðrennt nítján. Þeir gáfu okkur góðfúslegt leyfi til að deila síðustu sneiðinni. Við vorum ennþá svangar.

Flatbökufrekjurnar eru mér kærar – 10 ára drengurinn einnig. Alls engir yfirgangsmenn. Eintómir ljúflingar. En atvikin eru dæmigerð. Ekki fyrir þá. Bara almennt.

Fjölmargir kimar samfélagsins senda skilaboð. Margvís­leg skilaboð. Oft óviljandi og stundum óheppileg. Þau smjúga inn í undirmeðvitundina og hafa víðtæk áhrif. Það gerist víða. Ekki bara á matmálstímum. Líka í íþróttakeppnum. Í starfskjörum. Í viðtalsþáttum. Á launaseðlum. Ómeðvitað og oftsinnis. Áætlað að konur þurfi minna. Konur vilji minna. Konur sætti sig við minna. Þær fá minni skammta. Smærri bikar. Minni bíl. Verri áheyrn. Lægri laun.

Það horfir sífellt til betri vegar. Við stöndum framarlega í alþjóðlegum samanburði. Þó er enn langt í land. Margt þarf að breytast. Stækka og hækka. Aukast og batna. Konur þurfa meira. Þær vilja ábót og eru ennþá svangar.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×