Körfubolti

King fer frá Stólunum um miðjan nóvember

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Urald King hefur farið frábærlega af stað með Tindastól.
Urald King hefur farið frábærlega af stað með Tindastól. vísir
Urald King hefur byrjað tímabilið frábærlega í liði Tindastóls í Domino's deild karla. Hann er hins vegar á förum frá liðinu, í það minnsta tímabundið.

King þarf að yfirgefa Tindastól af persónulegum ástæðum, en kona hans er búsett í Bandaríkjunum og á von á barni. Karfan.is greindi frá því fyrr í vikunni að King væri á förum en óvíst var hvenær og hve lengi hann yrði í burtu.

King var með Tindastól í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Njarðvík. Pétur Rúnar Birgisson sagði í viðtali við Vísi eftir leikinn í kvöld að King færi 16. eða 17. nóvember eftir því sem hann kæmist næst og ekki væri vitað hvenær hann komi aftur. Ljóst er að brotthvarf King er mikið áfall fyrir Tindastól.

„Fjölskyldan hefur forgang og við ætlum ekki að stoppa hann í að fara út,“ sagði Pétur.

Heimildir íþróttadeildar herma að Stólarnir séu að íhuga að fá til sín annan bandarískan leikmann til þess að fylla skarð King.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×