Körfubolti

Teitur: Þetta er það besta sem ég hef séð frá Herði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson er stoðsendingahæstur í Keflavíkurliðinu.
Hörður Axel Vilhjálmsson er stoðsendingahæstur í Keflavíkurliðinu. vísir/bára
Keflavík er í toppbaráttunni í Domino´s-deild karla en stór ástæða fyrir því er spilamennska landsliðsleikstjórnandans Harðar Axels Vilhjálmssonar.

Hörður Axel hefur verið á miklu flakki undanfarin misseri og komið og farið til Keflavíkur á víxl. Nú er hann búinn að binda sig í Bítlabænum og er að spila stórvel.

Hörður Axel skoraði 22 stig, tók sjö fráköst og gaf tíu stoðsendingar í sigri á Þór Þorlákshöfn í síðustu umferð en í heildina er hann að skila 17 stigum, átta stoðsendingum og fimm fráköstum að meðaltali í vetur.

Hann var til umræðu í Domino´s-Körfuboltakvöldi í gær sem hluti af sterku þríeyki Keflavíkurliðsins en mest eru sérfræðingarnir ánægðir með hversu vel Hörður er að skjóta boltanum.

„Hann virðist vera búinn að leggja akkeri. Hann spilar þannig. Hann er að skjóta miklu betur og er að taka þessi skot af sjálfstrausti sem maður er ekki vanur því að sjá,“ sagði Kristinn Friðriksson.

„Ég er sammála því. Ég er sérstaklega ánægður með stöðugleikann sem hann er kominn með. Þetta er það besta sem ég hef séð frá Herði,“ sagði Teitur Örlygsson.

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld - Hörður búinn að festa akkeri

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×