Lífið

Tekur að sér hunda í heimilisleit

Guðný Hrönn skrifar
Aría, Sabine Leskopf og Dimma stilltu sér upp fyrir ljósmyndara.
Aría, Sabine Leskopf og Dimma stilltu sér upp fyrir ljósmyndara. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Ég hef sjálf alltaf átt gæludýr. Amma mín átti nefnilega gæludýrabúð þegar ég var lítil og við fengum alltaf dýrin sem við kölluðum stundum „útsöluvörur“,“ segir dýravinurinn Sabine Leskopf og hlær. „Ég ólst upp í Þýskalandi, þannig að það voru skjaldbökur, páfagaukar og bara alls konar. Og ég hef svo sjálf átt hund síðan árið 2009. Sá hundur sem ég á núna heitir Dimma og er blendingur. Ég fékk hana frá fólki sem gat ekki haft hana lengur árið 2013,“ útskýrir Sabine.

Árið 2014 setti Sabine sig í samband við Dýrahjálp og bauð fram krafta sína. „Dýrahjálp eru sjálfboðaliðasamtök sem sjá um að finna ný heimili fyrir dýr. Og Dýrahjálp heldur utan um hóp fólks sem býður dýrum heimili í millibilsástandi, á meðan verið er að finna varanlegt heimili,“ segir Sabine sem er í þeim hópi. Þessa stundina er hún með hundinn Aríu í fóstri. „Hún er hjá mér á meðan verið er að finna nýtt heimili og auglýsa eftir nýjum eigendum fyrir Aríu.“

Sabine hefur verið með um einn eða tvo hunda að meðaltali í fóstri yfir ár. „Það getur verið ógeðslega erfitt að láta hunda frá sér aftur eftir að hafa haft þá í fóstri. Sérstaklega fyrir börnin mín. Þá höfum við þurft að taka okkur pásu. Það er erfitt að láta hund frá sér sem manni er virkilega farið að þykja vænt um.“

Sabine tekur dæmi um einn hund sem henni þótti mjög erfitt að láta frá sér. Það er hundurinn Máni. „Hann var alveg yndislegur karakter og honum kom svo vel saman við minn hund. Það voru rosalega margir sem sóttu um að fá hann þannig að ég kynntist fullt af fólki á meðan á því ferli stóð,“ segir Sabine glöð.

„En Máni endaði hjá ungum manni frá Frakklandi, sá maður tók sér íslenskt nafn eftir að hafa búið hér lengi og það er svo fyndið að hann heitir líka Máni. Þannig að Máni býr hjá Mána. Hann býr í Vík og hefur það mjög gott.“ Sabine bætir við að hún vilji benda fólki á vef Dýrahjálpar, dyrahjalp.is.



Sabine Leskopf
Erindi um hundamenningu í borginni

Oft á tíðum lenda hundar hjá Dýrahjálp þar sem viðhorf Íslendinga gagnvart hundahaldi er stutt komið ef miðað er við nágrannalönd. Til dæmis er erfitt að finna leiguhúsnæði sem leyfir hunda. Í starfi sínu sem formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hefur Sabine lært að opinská umræða sé mikilvæg.

Sabine mun halda erindi í dag á málþingi um hundahald í Reykjavíkurborg. Þar mun Sabine ræða almennt um framtíðarsýn Reykjavíkurbúa hvað varða hundamenningu.

„Ég er formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Og það er náttúrulega svolítil áskorun af því að í augum margra hundaeigenda er hundaeftirlit eitthvert fjandsamlegt fyrirbæri. En þannig er það nú ekki,“ segir Sabine.

„Að vera formaður heilbrigðisnefndar hefur verið góður skóli fyrir mig og ég hef lært um mikilvægi hundaeftirlitsins. Hvað varðar hundamenningu þá erum við svolítið eftir á ef við miðum við nágrannalönd. Enn eru svo margir fastir í þeirri hugsun að hundar eigi bara að vera í sveit en hundar í sveit eru ekki gæludýr, frekar vinnudýr eða búfé. Gæludýr hafa allt aðra þýðingu fyrir fólk og það skortir svolítið skilning. Þar er ég sérstaklega að hugsa um fólk sem er annars mjög eingrað eða til dæmis þunglynt, þar sem ég hef oft heyrt um að gæludýr geri kraftaverk. Einnig höfum við nokkrum sinnum gefið leyfi fyrir heimsóknir hunda á deildum fyrir fólk með heilabilun eða slíkt. Sumir eru hins vegar alfarið á móti því að hafa hunda í borginni. Svo verða hundaeigendur reiðir og vilja breyta hundamenningunni. Og það hefur verið svo mikil áskorun fyrir mig að fá þessa tvo hópa til að tala saman. En í starfi mínu verð ég líka að gæta hagsmuna og réttinda þeirra sem eru með ofnæmi eða eru kannski hræddir við hunda. Ég verð að virða skoðanir allra. Og ég ætla í erindi mínu að tala um þetta og hvernig við getum breytt viðhorfum fólks og fundið leið sem gerir borgina skemmtilegri fyrir alla,“ segir Sabine sem er viss um að það sé vel hægt að leysa þau vandamál sem snúa að hundahaldi í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.