Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, sigraði Síle með einu marki, 23-22, á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir í Debrecen í Ungverjalandi.
Leikurinn var hnífjafn og var staðan jöfn í hálfleik, 11-11. Liðin skiptust á að leiða allt til enda. Íslenska liðið skoraði síðustu tvö mörk leiksins og náði með því að knýja fram eins marks sigur.
Lovísa Thompson var markahæst í liði Íslands með sjö mörk. Næst á eftir henni kom Sandra Erlingsdóttir með sex mörk. Andrea Jacobsen og Berta Rut Harðardóttir skoruðu síðan þrjú mörk hvor.
Í marki Íslands var Heiðrún Dís Magnúsdóttir með ellefu varða bolta.
Seinna í dag mætast lið Ungverjalands og Noregs og mætir sigurvegarinn úr þeim leik íslenska liðinu í 16-liða úrslitum.

