Sport

Versti árangur Bandaríkjanna á ÓL í 20 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Vonn var ein af þeim sem ætlaði sér meira.
Lindsey Vonn var ein af þeim sem ætlaði sér meira. Vísir/EPA
Bandaríkjamenn urðu aðeins í fjórða sæti á verðlaunalista vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang og horfa nú til Norðmanna til að bæta sig fyrir næstu leika í Peking 2022.  

Bandaríkjamenn náðu ekki nema 62 prósent af verðlaunapeninga markmiðum sínum á Ólympíuleikunum í Pyeongchang sem lauk í gær. Árangurinn er því mikil vonbrigði fyrir bandaríska Ólympíusambandið.





 Bandaríska íþróttafólkið vann alls 23 verðlaun á leikunum en stefnan hafði verið sett á 37 verðlaun. Þetta er versti árangur Bandaríkjanamma í tuttugu ár eða síðan að þeir unnu „bara“ þrettán verðlaun á leikunum í Nagano 1998.

Bandaríkjamenn urðu í fjórða sæti á verðlaunalistanum á eftir Noregi, Þýskalandi og Kanada. Bandaríkjamenn unnu alls níu gullverðlaun í Pyeongchang en Norðmenn og Þjóðverjar unnu fjórtán hvor þjóð.





Árangur Norðmanna hefur vakið mikla athygli en norsku Ólympíufararnir stóðu sig stórkostlega á leikunum. Það fór ekki framhjá bandarísku Ólympíunefndinni.

„Við munum horfa til annarra landa og komast að því hvað þau eru að gera. Eitt af því sem ég er mest forvitinn um er að fá að vita meira um er þessi framistaða Norðmanna. Þeir stóðu sig frábærlega og hafa alltaf staðið sig vel í því að undirbúa sitt íþróttafólk. Ég dáist af þeim fyrir það,“ sagði Alan Ashley, yfirmaður Ólympíuliðs Bandaríkjanna í Pyeongchang.

„Ég dáist líka að íþróttafólki Norðmanna. Ég vil komast því hvað þau hafa verið að gera,“ sagði Alan Ashley.

„Ég hef samt mikla trú á okkar fólki. Fólk getur vissulega talað um að við höfum ekki getað náð verðlaunafjöldanum sem við stefndum að en sjáið bara breiddina í okkar liði. Sjáið allt íþróttafólkið okkar sem var í fjórða til sjötta sæti í sínum greinum. Við vorum með 35 sem voru í þessum sæti og grátlega nálægt því að komast á verðlaunapallinn,“ sagði Ashley.

Norðmenn kláruðu hinsvegar dæmið, komust 39 sinnum á pall og settu nýtt met á vetrarólympíuleikum..





 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×