Sá sem stóð upp úr í vikunni og fékk titilinn Nocco leikmaður umferðarinnar var Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson. Elvar var að spila sinn fyrsta leik síðan í október eftir meiðsli og að öðrum ólöstuðum sá til þess að Selfoss vann Val í Valshöllinni á fimmtudaginn.
Elvar hafði hægt um sig í fyrri hálfleik og skoraði eitt mark í fjórum skotum. Hann hrökk svo heldur betur í gang í seinni hálfleik og setti 10 mörk í 11 skotum. Allt Valsliðið skoraði aðeins fjórum mörkum meira en Elvar í seinni hálfleiknum.
Olís deild kvenna hefur verið í gangi í janúarmánuði, en þar var þó 15. umferðin einnig að klárast í vikunni. Þar var Ester Óskarsdóttir hjá ÍBV valin best.
ÍBV gerði sér lítið fyrir og skellti toppliði Vals á heimavelli og var Ester atkvæðamest í liði Eyjakvenna með 10 mörk.
Elvar Örn var að sjálfsögðu í liði umferðarinnar eftir þessa frammistöðu hans og með honum þar var Haukur Þrastarson í leikstjórnendastöðunni. Tveir Haukamenn voru í liðinu eftir öruggan sigur á Stjörnunni, þeir Hákon Daði Styrmisson í vinstra horninu og Atli Már Báruson í hægri skyttu.
ÍR-ingurinn Úlfur Gunnar Kjartansson er inni á línunni og Mosfellingarnir Lárus Helgi Ólafsson í markinu og Gestur Ólafur Ingvarsson í hægra horninu fullkomna liðið.
Þjálfari umferðarinnar var Patrekur Jóhannesson eftir frábæra frammistöðu með Selfossliðið gegn Völsurum.
Úrvalslið 15. umferðar Olís deildar kvenna er nokkuð bláleitt, með Framararana Marthe Sördal í vinstra horninu og Sigurbjörgu Jóhannsdóttur í leikstjórnandanum ásamt Stjörnukonunum Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur í hægra horninu og Elenu Elísabet Birgisdóttur á línunni.
Berta Rut Harðardóttir úr Haukum er í hægri skyttunni og Eyjakonur eiga þrjá fulltrúa, Guðný Jenný Ásmundsdóttir í markinu og Ester Óskarsdóttur í vinstri skyttunni ásamt Hrafnhildi Skúladóttur þjálfara.
G-form hörkutól umferðarinnar fór í hendur mannsins sem hreppti þann heiður fyrstur allra í byrjun tímabilsins, Elliða Snæs Viðarssonar, hjá ÍBV. Heiðurinn fékk hann fyrir frábæra sendingu aftur fyrir bak á meðan hann var í haldi hjá tveimur varnarmönnum Víkings.