Ingrosso og Sandmann hefur báðum verið hrósað fyrir að halda ekki aftur af sér og láta óhræddir í ljós væntumþykju. Sænska dagblaðið Aftonbladet vakti athygli á stöðuuppfærslu hins 24 ára gamla Svía August Kretschmer Jeansson Plym í tengslum við málið.
Í stöðuuppfærslunni fjallar Jeansson Plym um Ingrosso og Sandmann og hispurslaus vinahót þeirra á milli er þeir biðu eftir úrslitum. Mjótt var á mununum og greinilegt var að söngvararnir voru spenntir.
LADIES AND GENTLEMEN, BENJAMIN INGROSSO AND FELIX SANDMAN pic.twitter.com/AwZyEhlXlq
— навечно пять лет (@ohmydeardi) March 11, 2018
Þá lýsir Jeansson Plym því hvernig Ingrosso steypti sér í handahlaup í sigurvímu, missti jafnvægið og datt í jörðina. Í kjölfarið beygði Sandmann sig niður og kyssti Ingrosso rembingskoss, til að óska honum til hamingju með sigurinn.
„Strákar, haldið áfram að gera það sem þið eruð að gera. Haldið áfram að sýna tilfinningar ykkar, kennið ungum mönnum að það sé í lagi að vera berskjaldaður. Kennið ungum mönnum að það sé í lagi að samgleðjast vini,“ skrifar Jeansson Plym og lofar Ingrosso og Sandmann í hástert fyrir að sýna gott fordæmi.
Þá var Ari Ólafsson, sem fer fyrir Íslands hönd í Eurovision, gagnrýndur fyrir að hafa grátið í beinni útsendingu á úrslitakvöldi Söngvakeppni sjónvarpsins. Netverjar komu Ara þó margir til varnar og hrósuðu honum fyrir að leyfa tárunum að flæða.