Sport

Gunnar og Oliveira mestu mátar eftir bardagann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það fór vel á með Gunnari og Oliveira eftir bardagann.
Það fór vel á með Gunnari og Oliveira eftir bardagann. Mynd/Facebook
Þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Gunnari Nelson á UFC bardagakvöldi í Toronto um helgina var Alex Oliveira hæstánægður með að fá mynd af sér með Mjölnismanninum, ef marka má mynd sem Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, birti á Facebook í gær.

Oliveira þurfti að fá 29 spor saumuð í ennið eftir að hafa fengið þungt olnbogahögg í andlitið í annarri lotu bardaga þeirra um helgina. Stuttu síðar kláraði Gunnar bardagann með hengingartaki en þá fossblæddi úr enni Brasilíumannsins.

Þetta var kærkominn sigur hjá Gunnari en bardaginn um helgina var hans fyrsti síðan í júlí 2017. Gunnar sagði eftir bardagann að hann stefni á að berjast fljótlega á næsta ári og er hann með augu á bardagakvöldi UFC í London í mars. Hann greindi þó einnig frá því að hann hafi meiðst á hné í aðdraganda bardagans um helgina og á eftir að koma í ljós hversu alvarleg þau eru.

Gunnar hefur nú barist ellefu sinnum í UFC og unnið átta bardaganna. Oliveira hefur barist fjórtán sinnum á sínum UFC ferli og tapið um helgina var hans fjórða.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×